Íslenska kvennalandsliðið í handbolta tapaði sínum fyrsta leik í 4. riðli undankeppni Evrópumótsins 2026 gegn Færeyjum í Framhúsi í Úlfarsdárdal á miðvikudaginn.
Leiknum lauk með tveggja marka sigri Færeyja, 24:22, en Elín Klara Þorkelsdóttir, Katrín Anna Ásmundsdóttir og Katrín Tinna Jensdóttir voru markahæstar í íslenska liðinu með fjögur mörk hver, Sandra Erlingsdóttir skoraði þrjú, Elín Rósa Magnúsdóttir og Dana Björg Guðmundsdóttir tvö mörk hvor og þær Andrea Jacobsen, Elísa Elíasdóttir og Díana Dögg Magnúsdóttir sitt markið hver. Þá átti Hafdís Renötudóttir stórleik í marki Íslands og varði 15 skot, þar af tvö vítaköst.
Eftir fyrstu umferð riðlakeppninnar eru Ísland og Portúgal í neðstu tveimur sætunum án stiga en Færeyjar og Svartfjallaland eru með tvö stig hvort í efstu tveimur sætunum. Tvö efstu lið riðilsins tryggja sér sæti í lokakeppninni sem fram fer í Tékklandi, Póllandi, Rúmeníu, Slóvakíu og Tyrklandi í desember á næsta ári en næsti leikur íslenska liðsins er gegn Portúgal í Matosinhos í Portúgal á morgun.
„Tilfinningin er sú að liðið þurfi aðeins að stilla strengina núna eftir brotthvarf margra lykilleikmanna,“ sagðu landsliðskonan fyrrverandi og aðstoðarþjálfari Stjörnunnar Hanna Guðrún Stefánsdóttir í samtali við Morgunblaðið þegar hún ræddi frammistöðu íslenska liðsins í leiknum gegn Færeyjum.
Landsliðsþjálfarinn Arnar Pétursson spilaði meira og minna á sama liðinu sóknarlega gegn Færeyjum en hefði hann ekki mátt gefa leikmönnum á borð við Lovísu Thompson og Söndru Erlingsdóttur fleiri tækifæri í sókninni þar sem liðinu gekk illa að koma boltanum í netið á stórum köflum í leiknum?
„Kannski var þetta upplegg þjálfarans, að spila mest á Andreu Jacobsen og Elínu Klöru Þorkelsdóttur, maður veit það ekki en ég var ofboðslega glöð að sjá Lovíu aftur í hópnum. Það fylgir henni mikill kraftur og barátta og hún er leikmaður sem gefst aldrei upp. Ég er samt alveg á því að ég hefði viljað sjá okkur gera fleiri breytingar og nýta hópinn betur þar sem margir leikmenn voru ekki alveg á deginum sínum sóknarlega. Alfa Brá [Oddsdóttir Hagalín] var ein þeirra sem sat á bekknum allan tímann og mér fannst það sérstakt.
Thea [Imani Sturludóttir] kemur inn í sóknina og Lovísa inn í vörnina á einhverjum tímapunkti í leiknum og þá tókst okkur að jafna metin en við missum það svo aftur niður. Það tekur oft á sjálfstraustið þegar þú ert að elta allan leikinn, nærð að jafna en nærð svo ekki að komast yfir líkt og við lentum nokkrum sinnum í gegn Færeyjum. Það má heldur ekki gleymast að við erum búin að vera að glíma við meiðsli líka. Þórey Anna Ásgeirsdóttir er meidd og Elísa [Elíasdóttir] og Thea eru báðar að stíga upp úr meiðslum. Það hefur áhrif á lið eins og okkar, það segir sig sjálft.“
Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.