Annar atvinnumaður á leið á Hlíðarenda

Hákon Daði Styrmisson.
Hákon Daði Styrmisson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Handboltamaðurinn Hákon Daði Styrmisson er á heimleið eftir fjögur ár í Þýskalandi.

Þetta staðfesti hann í samtali við mbl.is og Morgunblaðið en Hákon Daði, sem er 28 ára gamall, á von á sínu fyrsta barni ásamt unnustu sinni í mars. Hann hefur leikið með Hagen í þýsku B-deildinni frá árinu 2023.

Hann hélt út til Þýskalands árið 2021 þegar hann gekk til liðs við Gummersbach frá uppeldisfélagi sínu ÍBV.

Samkvæmt heimildum mbl.is og Morgunblaðsins er Hákon Daði á leið í Val og verður þar með annar leikmaðurinn á stuttum tíma sem snýr heim úr atvinnumennsku og semur við Val.

Arnór Snær Óskarsson gekk til liðs við Valsmenn frá Noregsmeisturum Kolstad á dögunum en Valsmenn eru með 10 stig í fimmta sæti deildarinnar eftir fyrstu átta umferðirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert