Stemning í kringum bera knapa

Blesastaðir 1A voru valdir besta ræktunarbúið á landsmótinu. Fjórir knapar í sýningunni fóru úr að ofan þegar skera átti um hvort Blesastaðir eða Álfhólar myndu sigra. 

Þeir vöktu mikla lukku á gríðarlega góðum hestum og má þar nefna Ölfu frá Blesastöðum sem sigraði í tölti og Óskar frá Blesastöðum sem einnig var í A-úrslitum í tölti. Þá er Fláki frá Blesastöðum einnig frá búinu. 

Á búinu rækta hross þau Magnús Svavarsson og Hólmfríður Björnsdóttir. Þau voru að vonum ánægð með sigurinn og hrossin. Hólmfríður taldi knapana hafa hjálpað mikið til við að mynda góða stemningu í kringum sýningu búsins. 

Það voru þeir Þórður Þorgeirsson, Sigursteinn Sumarliðason, Flosi Ólafsson og Jóhann R. Skúlason sem riðu berir að ofan en það var hugmynd Daníels Jónssonar sem hélt sig þó í reiðklæðnaðinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert