Systkinin Sunna Dís Heitmann og Kristófer Darri Sigurðsson eru bæði 12 ára gömul og keppa í barnaflokki á landsmótinu fyrir hestamannafélagið Sprett. Þau voru á Hellu nýverið að æfa sig fyrir landsmótið ásamt fjölmennum hópi barna, unglinga og ungmenna frá Spretti ásamt reiðkennurum sínum.
Systkinin segjast ekki keppa mikið sín á milli og sverja alfarið af sér að rífast í hesthúsinu um hver fær að fara á hvaða hest. Þau brosa þó bæði út í annað þegar þau eru spurð nánar út í þetta.
Sunna og Kristófer eru ekki blóðskyld þar sem foreldrar þeirra, móðir Sunnu og faðir Kristófers, hófu sambúð fyrir nokkrum árum. Systkinasamband þeirra er þó sterkt því hestamennskan tengir þau betur saman. Í vetur hafa þau bæði þjálfað hvort um sig sína hesta. Þau stefndu bæði á að komast inn á landsmót snemma í vetur og segjast hafa unnið af kappi til að ná því markmiði. Þau voru bæði á keppnisnámskeiði hjá reiðkennurum Spretts. „Ég er rosalega þakklátur fyrir hjálpina frá þeim. Þau hafa fylgt okkur á öll mót og styðja okkur vel,“ segir Kristófer Darri og Sunna tekur undir orð hans. Spurður hvað sé svona skemmtilegt við að keppa á landsmóti svarar Kristófer: „Þetta er stærsta mótið og gaman að keppa þegar fleiri áhorfendur eru.“
Þau eru sammála um að hrossin sem þau keppa á séu mjög góð. Þau komu bæði tveimur hestum inn á mót og þurftu því að velja hvort hrossið þau færu með á landsmót. Þau völdu bæði hrossið sem þau náðu hærri einkunn á. Kristófer Darri var efstur í barnaflokki inn á mót fyrir Sprett með graðhestinn Flóka frá Flekkudal og Sunna Dís er með hestinn Bjart frá Köldukinn.
Þeim þykir allt skemmtilegt við hestamennskuna en segja þó bæði að hvað skemmtilegast sé að vera á hestbaki í góðu veðri og ríða langt eins og í sleppitúr sem þau fóru í nýverið ásamt fjölskyldu sinni.