Söngur og gleði verður allsráðandi

„Það er lagt upp með að hafa þetta skemmtilegt og þannig verður það örugglega,“ segir Gísli Árnason formaður Karlakórsins Heimis úr Skagafirði sem kemur fram á setningarathöfn Landsmóts hestamanna á Hólum í Hjaltadal. Eftir setninguna verður ball og mun kórinn einnig taka nokkur lög við upphaf þess. Heimismenn eru vanir því að koma fram á landsmótum en kórinn kom fram á Vindaheimamelum þegar Landsmót var síðast haldið þar og söng þá á setningarathöfn og kvöldvöku.

Kristján Jóhannsson gestur

Í þetta sinn fær kórinn góðan gest til að syngja með sér. „Akureyringurinn frægi Kristján Jóhannsson mun syngja með okkur í tveimur lögum en við höfum aldrei náð þeim áfanga áður að fá hann til liðs við okkur,“ segir Gísli. En hvaða lög ætla þeir að syngja? „Söngstjórinn okkar Stefán Gíslason er að möndla það saman, ætli við tökum ekki þessi hestatengdu lög sem flestir kunna. Lög eins og Stíg fákur létt og Þú komst í hlaðið eru alltaf vinsæl, annars eru til mörg skemmtileg hestalög.“ Gísla líst vel á undirbúninginn fyrir landsmót „Þetta verður ekki síðra núna heldur en á Vindheimamelum, aðstaðan er öðruvísi en þetta á örugglega eftir að koma vel út,“ segir hann.

Gísli er sjálfur hestamaður en mun hann keppa sjálfur á mótinu? „Nei ég er bara hobbýkall eins og svo margir aðrir en ég hef gaman af þessu og fylgist með hestamennskunni, annars eru margir hestamenn í okkar hópi og einhverjir þeirra verða á landsmóti til að fylgjast með en ég veit ekki alveg hvort einhver þeirra er með hest á mótinu,“ segir hann glaðbeittur.

Vegleg skemmtidagskrá í boði

Auk Karlakórsins Heimis munu margir tónlistarmenn og hljómsveitir stíga á svið á landsmótinu. Magni Ásgeirsson verður skemmtanastjóri mótsins en auk hans munu koma fram Matti Matt, Sverrir Bergmann og Ágústa Eva, Hreimur og félagar í Made in sveitin, Jón Þorsteinn spilar, Sigvaldi og hljómsveit kvöldsins munu skemmta og Hljómsveit Geirmundar kemur einnig fram. Það er því ljóst að það stefnir í veglega og skemmtilega dagskrá á Landsmóti og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert