„Að hleypa á stökk”

Haukur Ingi Haukson og Heiður Karlsdóttir stóðu sig vel í …
Haukur Ingi Haukson og Heiður Karlsdóttir stóðu sig vel í barnaflokki. Morgunblaðið/Þórunn

„Að hleypa á stökk,” segja þau bæði í kór, Heiður Karlsdóttir og Haukur Ingi Hauksson, spurð hvað þeim þyki skemmtilegast við að keppa í barnaflokki. Blaðamaður náði tali af þeim að lokinni keppni og voru þau bæði alsæl með eigin frammistöðu enda ekki annað hægt á svo stóru móti. Þau stóðu sig bæði mjög vel og komust áfram í milliriðla að lokinni forkeppni.

Efstur eftir forkeppni er Sjéns frá Bringu og Kristján Árni Birgisson með 8,88 í einkunn. Næst á eftir honum er Júlía Kristín Pálsdóttir á Kjarval frá Blönduósi. 

Foreldrar þeirra stóðu á hliðarlínunni og mátti sjá ögn meiri spennu hjá þeim en börnunum, keppendunum sjálfum. Heiður keppir fyrir hestamannafélagið Fák og var á hestinum Hávarði frá Búðarhóli og Haukur Ingi fyrir hestamannafélagið Sprett. Þau hafa bæði verið í hestamennsku frá því þau voru enn minni en báðar fjölskyldur þeirra stunda hestamennsku.   

„Keppa, það er klárt mál. Ég væri ekki í hestum nema af því það er keppt í þessu,” er Haukur Ingi snöggur til svars, spurður hvað er skemmtilegast í hestamennskunni. Hann bætir fljótt við brosandi: „Alveg eins og mamma” og röltir til hennar.

Heiður hefur einnig gaman af því að keppa en þykir samt skemmtilegra að fara í skemmtireiðtúra, að ríða út með fjölskyldunni í náttúrunni, sérstaklega í fjörunni.

Guðný Dís og Roði frá Magrétarhofi eru í 5. sæti …
Guðný Dís og Roði frá Magrétarhofi eru í 5. sæti eftir forkeppni. Morgunblaðið/Þórunn
Foreldrar og börn að undirbúa sig fyrir keppni.
Foreldrar og börn að undirbúa sig fyrir keppni. Morgunblaðið/Þórunn
Morgunblaðið/Þórunn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert