Kynnast þjóðinni á puttanum

Mægurnar Nicola og Jette Blümel.
Mægurnar Nicola og Jette Blümel. Mbl.is/Þórunn

Þýsku mæðgurnar Nicola og Jette Blümel eru sannkallaðar ævintýrakonur. Þær komu til Íslands í lok maí með Norrænu og hyggjast ekki fara aftur heim til Þýskalands fyrr en í lok október. Þær ferðast um landið á puttanum og segja það góða leið til að kynnast landi og þjóð á fimm mánuðum. Móðirin vinnur sem sjálfboðaliði á Landsmótinu á Hólum og gista þær í tjaldi. Það væsir ekki um þær enda eru þær með fyrirtaks svefnpoka og tjald sem stenst veður og vind og var keypt sérstaklega fyrir þessa Íslandsferð enda bjuggust þær við mun verra veðri en verið hefur.

„Við leyfum hlutum að gerast og grípum tækifærin tveim höndum. Ég kynntist íslenskri hestakonu sem sagði mér frá Landsmótinu og ég ákvað að sækja um sem sjálfboðaliði á mótinu. Við vildum endilega fá að taka þátt í svona stóru hestamóti. Þegar maður ferðast á puttanum kynnist maður svo skemmtilegu fólki,“ segir Nicola sem dásamar þennan ferðamáta og segir það lítið mál að vera tvær á ferð.

Verkefni sjálfboðaliða á Landsmóti eru fjölbreytt, allt frá hliðvörslu inn á keppnisvöll eða ruslatínslu í brekkunni. Í fyrradag var verkefni hennar sem sjálfboðaliða að setja borða á handlegg keppenda í barnaflokki svo dómarar þekki þá í sundur. „Það er svo gaman að komst í tæri við íslenska hestinn og fólkið,“ segir hún. Hún stundar sjálf hestamennsku en hún ólst upp á sveitabæ í Norðaustur-Þýskalandi. Á heimili hennar voru ekki íslenskir hestar heldur velskir smáhestar og svokallaðir Shetlands-hestar. Nicola átti langt og árangursríkt keppnistímabil fram til 21 árs aldurs í hestafimleikum sem eru mikið stundaðir erlendis.

Dóttirin Jette sem er 12 ára æfir líka hestafimleika. Henni líkar dvölin á Íslandi vel og sérstaklega frelsið hér á landi. Nicola hefur ekki áhyggjur af því að dóttir hennar stundi ekki hefðbundna skólagöngu í þessa fimm mánuði. „Lífið kennir henni. Ég reyni að kenna henni líka en hún hlustar ekki á mig því ég er móðir hennar,“ segir hún og hlær. Jette, brosir líka prakkaralega og segist njóta lífsins á Íslandi, sérstaklega þegar hún fær að komast í tæri við íslensku hestana.

Markmið þeirra er að komast í sjálfboðaliðavinnu á sveitabæ. Nicola hefur starfað víða um heim m.a. á Nýja-Sjálandi við að smala kindum. Nicola er smiður að mennt og hefur einnig siglingaréttindi á kajak. Áður en leið þeirra mæðgna lá að Hólum í Hjaltadal voru þær á Húsavík. Þar starfaði Nicola í sjálfboðaliðavinnu, m.a. við að laga trébáta. „Það var æðislegt og gátum við farið í hvalasiglingu á hverjum degi því eigandinn á hvalaskoðunarfyrirtæki,“ segir hún dreymin á svip. Hún tekur fram að hennar bíði þar starf ef hún kjósi en helst vilja þær komast á sveitabæ þar sem hestar eru. Þær eru komnar til landsins til að upplifa margt og kynnast nýju fólki. Þær segja Íslendinga einstaklega opna og skemmtilega. Í því samhengi nefnir hún hversu auðvelt það sé að starfa sem sjálfboðaliði hér, ólíkt heimalandinu þar sem skrifræðið stendur slíkri vinnu fyrir þrifum. Það er ekki hægt að sleppa þeim án þess að spyrja um landsleik Íslands og Bretlands sem þær horfðu á á mótsvæðinu. „Þetta var æðislegt. Við vonum bara að Þýskaland þurfi ekki að mæta Íslendingum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert