Landsmót hestamanna hefst með pompi og prakt

Áhorfendur fylgjast grannt með keppni á aðalvelli Fáks en ungmenni ...
Áhorfendur fylgjast grannt með keppni á aðalvelli Fáks en ungmenni á aldrinum 10-18 ára kepptu í Víðidal í dag. mbl.is/Arnþór

Landsmót Hestamanna hófst í morgun á svæði Fáks í Víðidal. Mótið, sem er hið 23. í röðinni er nú haldið í Reykjavík í þriðja sinn en áður hafa þar verið haldin mót árin 2000 og 2012.

Má segja að veðrið hafi leikið við viðstadda en sólin lét sjá sig eftir hádegi og bjart var yfir þess utan. Mótið hófst í morgun með keppni í barnaflokki og mun keppni í unglingaflokki standa yfir í dag og fram á kvöld.

Um þrjú þúsund manns voru á svæði hestamannafélags Fáks á ...
Um þrjú þúsund manns voru á svæði hestamannafélags Fáks á fyrsta degi Landsmóts hestamanna. mbl.is/Arnþór

Sannkölluð fjölskyldustemning er á svæðinu, þar sem ungir sem aldnir sitja í brekkunni og horfa á yngstu keppendurna stíga sín fyrstu skref í hestaíþróttinni. Áskell Heiðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Landsmóts, telur að um 3000 manns séu staddir í Víðidal og ekki ólíklegt að bætist við fjöldann þegar líður á daginn. Í dag er frítt inn fyrir almenning og er það í fyrsta sinn sem það er reynt. Er það gert í þeim tilgangi að auðvelda aðstandendum ungu knapanna að koma og sjá þau keppa, ásamt því að leyfa áhugasömum að sjá umgerð slíks móts sem er öll hin glæsilegasta í ár. „Það er búið að vera mjög gaman að opna svona fyrir svæðið og leyfa fleirum að taka þátt í þessu,“ segir Áskell Heiðar. Hin ýmsu skemmtiatriði fyrir börnin voru á dagskrá í dag, ásamt því að fjölmörg veitingafyrirtæki selja veitingar í básum og vögnum.

Áskell Heiðar Ásgeirsson framkvæmdastjóri Landsmóts 2018, Sigurbjörn Magnússon formaður stjórnar ...
Áskell Heiðar Ásgeirsson framkvæmdastjóri Landsmóts 2018, Sigurbjörn Magnússon formaður stjórnar LM, Guðni Th. Jóhannesson forseti og Hjörtur Bergstað formaður Fáks. Ljósmynd/Aðsend

Guðni Th. Jóhannesson forseti mætti síðdegis og gaf þátttakendum í barnaflokki knapagjafir við mikla lukku viðstaddra, en áður hafði hann fylgst með keppni í unglingaflokki á aðalvellinum. Í kvöld verður barnaball með Jóa Pé x Króla og Magna og er svæðið opið fram að miðnætti. 

Í fyrramálið hefst keppni í B-flokki og mun keppni í ungmennaflokk, þ.e. keppni ungmenna á aldrinum 18-21 árs, hefjast eftir hádegi.

mbl.is