Fjölgað hefur í hópi framúrskarandi hrossa

„Tekist hefur að safna í stóran þekkingarsarp og við höfum …
„Tekist hefur að safna í stóran þekkingarsarp og við höfum borið gæfu til að rannsaka ákveðnar hliðar íslenska hestsins mjög vandlega, sem hefur skilað sér í miklum erfðaframförum. Þá hefur meðhöndlun og tamning líka stórbatnað svo að betur gengur að ná öllum eðliskostum hestanna fram,“ segir Þorvaldur Kristjánsson og bætir við að mikilvægt sé að halda áfram á sömu braut. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þorvaldur Kristjánsson hrossræktarráðunautur hefur haft í mörgu að snúast í aðdraganda Landsmóts hestamanna 2018. Hann er einn af fremstu kynbótadómurum landsins og hefur undanfarnar vikur verið á þeytingi á milli kynbótasýninga víða um land. Hann verður líka önnum kafinn á landsmótinu enda formaður dómnefndar og í hópi fimm kynbótadómara mótsins.

Þótt vinnudagarnir verði langir næstu vikuna er greinilegt að Þorvaldur hlakkar mikið til. „Í mínum huga snýst landsmótið fyrst og fremst um að hylla þennan frábæra hest sem við eigum og njóta samvista við góða hesta og gott fólk. Landsmótið er uppskeruhátíð þar sem við fáum að sjá þær framfarir sem orðið hafa í stofninum og einnig í reiðmennsku.“

Til að fá að taka þátt í landsmóti þurfa hestar fyrst að taka þátt í kynbótasýningum sem haldnar eru víðsvegar á Íslandi. „Á þessum sýningum dæmum við rúmlega þúsund kynbótahross sem skiptast í nokkra flokka og efstu hrossin í hverjum flokki vinna sér þátttökurétt á landsmótinu,“ útskýrir Þorvaldur.

Spennandi sýning

Alls eru um 170 kynbótahross sýnd á landsmóti í einstaklingssýningum og eru hrossin sýnd í mismunandi flokkum. Flokkunum er skipt eftir kyni í fjögurra, fimm, sex og sjö vetra hryssur annars vegar og stóðhesta hins vegar svo að flokkarnir eru samtals átta. Hrossin sem sýnd eru á mótinu halda öll byggingardómum sínum frá því í vor og er eingöngu dæmt fyrir hæfileika.

Að auki eru stóðhestum veitt verðlaun fyrir afkvæmi og ræðst röðunin þar af fjölda stiga í kynbótamati aðaleinkunnar hestsins en til að koma til greina þarf stóðhestur að eiga a.m.k. fimmtán dæmd afkvæmi sem öll hafa fengið að lágmarki 118 stig. „Til viðbótar eru veitt heiðursverðlaun þeim stóðhestum sem eiga að lágmarki 50 dæmd afkvæmi samkvæmt sömu viðmiðum og fær sá stóðhestur sem stendur þar efstur hinn eftirsótta Sleipnisbikar,“ útskýrir Þorvaldur.

Mikil spenna ríkir í kringum kynbótadómana því þó að byggingardómar liggi fyrir áður en landsmót hefst þá mynda þeir aðeins 40% af heildareinkunn hvers hests og hæfileikarnir því 60% af lokaeinkunninni. Knaparnir geta farið tíu ferðir fram og til baka um keppnisvöllinn til að sýna allt sem í hrossinu býr. Sýna þarf allar fimm gangtegundir íslenska hestsins og dómararnir nota dómskala við matið til að tryggja að samræmi sé á milli dóma sem veittir eru á landsmóti og á öðrum sýningum.

Miklar framfarir hafa orðið á skömmum tíma

Þorvaldur hefur verið innan um hesta frá því hann var barn og eignaðist sinn fyrsta klár aðeins sjö ára gamall. Þorvaldur er rétt rúmlega fertugur í dag og segir hann að gríðarlegar breytingar hafi orðið í hrossaræktarheiminum frá því hann fór sjálfur á bak í fyrsta sinn. „Tekist hefur að safna í stóran þekkingarsarp og við höfum borið gæfu til að rannsaka ákveðnar hliðar íslenska hestsins mjög vandlega, sem hefur skilað sér í miklum erfðaframförum. Þá hefur meðhöndlun og tamning líka stórbatnað svo að betur gengur að ná öllum eðliskostum hestanna fram. Það er afar mikilvægt að halda þessu rannsóknarstarfi áfram til að tryggja áframhaldandi framfarir.“

Þrátt fyrir að stofninn hafi stórbatnað er það ekki svo að bestu hestarnir á landsmótum fyrir 30 árum þættu algjörir eftirbátar hestanna sem sýndir eru í dag. „En það sem hefur gerst er að hestarnir sem eru sýndir núna eru orðnir mun betri heilt á litið og minni munur á gæðunum. Stærsta breytingin er hversu miklu meira er í dag til af framúrskarandi hrossum,“ segir Þorvaldur og bætir við að þetta geti gert starf dómarans erfiðara. „Kröfurnar til hrossanna aukast jafnt og þétt í takt við framfarirnar.“

Mikið er í húfi og keppendur hafa lagt mikla vinnu og oft mikla fjármuni í hestana sem þeir sýna. Þorvaldur segir að ræktendur séu upp til hópa mjög íþróttamannslegir og fátítt að deilt sé um ákvörðun dómaranna. „Ræktendur nú til dags eru líka mjög vel að sér í öllu sem viðkemur ræktun og reiðmennsku, með mikla þekkingu á því hvað kynbótadómarnir ganga út á, og því er yfirleitt góður skilningur á niðurstöðum dómanna þótt vissulega sé á stundum meiningarmunur.“

Bikar með 160 ára sögu

Sleipnisbikarinn er æðstu verðlaun landsmótsins og um veglegan verðlaunagrip að ræða með merkilega sögu. Bikarinn var fyrst afhentur á landbúnaðarsýningu í Reykjavík árið 1947 fyrir besta reiðhestinn. Sleipnisbikarinn er samt mun eldri því af merkingum á honum má ráða að bikarinn hafi verið smíðaður í London á tímabilinu 1837 til 1857. Á bikarnum er skjöldur sem gefur til kynna að hann hafi fyrst verið notaður sem verðlaunagripur árið 1857 í kappreiðum í norðanverðu Yorkshire-héraði, Union Bunt Cup, og var það breskur majór að nafni Bell sem reið hestinum The Hero til sigurs.

Í lok seinni heimsstyrjaldar er bikarinn seldur á uppboði í London og var kaupandinn Íslendingur, að öllum líkindum útgerðarmaður. Hann tekur bikarinn með sér til Íslands og fær það seinna staðfest að gripurinn sé mjög verðmætur enda völundarsmíð og gerður úr fjórum kílóum af silfri. Fór svo að íslenska ríkið og Búnaðarfélag Íslands keyptu bikarinn og skiptu kostnaðinum jafnt á milli sín.

Sleipnisbikarinn er farandbikar og þeir sem hljóta hann fá að hampa gripnum við hátíðlega athöfn en fá síðan aðeins að eiga mynd af bikarnum. Að verðlaunaathöfninni lokinni er bikarinn fluttur aftur í Bændahöllina þar sem hann er geymdur á öruggum stað í læstum skáp.

Knapinn kallar fram kosti hestsins

Knapi og þjálfari geta haft mikil áhrif á frammistöðu hests á landsmóti. „Þegar rýnt er í tölurnar kemur í ljós að aðeins 30-40% af þeim árangri sem við sjáum á keppnisbrautinni ræðst af erfðum og skrifast þá afgangurinn á uppeldi, þjálfun og tamningu hestsins. Vitaskuld skiptir miklu máli að para saman góð hross en lykillinn að því að skara fram úr er að huga rétt að öllu því sem fylgir í kjölfarið. Það er þessi eftirfylgni sem skilur á milli ræktendanna,“ segir Þorvaldur. „Flinkur knapi kallar síðan fram kosti hestsins svo að eðlisgæði hans skína í gegn. Við sjáum að sýnendurnir verða hæfari með hverju árinu og breytileikinn á milli knapa sífellt að minnka.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert