Margt að sjá og gera innan sem utan keppnissvæðisins

Áskell Heiðar Ásgeirsson framkvæmdastjóri Landsmóts hestamanna. Hann segir gesti m.a. …
Áskell Heiðar Ásgeirsson framkvæmdastjóri Landsmóts hestamanna. Hann segir gesti m.a. getað fengið sér í svanginn í reiðhöll Fáks sem breytt hefur verið í mathöll og keypt eigulega muni frá hönnuðum og handverksfólki í markaðstjaldi mótsins. mbl.is/Haraldur Jónasson

Eftir langan undirbúning er landsmót hestamanna loksins að bresta á. Áskell Heiðar Ásgeirsson er framkvæmdastjóri mótsins og undanfarin misseri hefur hann unnið af kappi við það að undirbúa komu margra þúsunda innlendra og erlendra gesta, hesta og keppenda á þennan stórviðburð.

Að vanda má búast við mjög hátíðlegu andrúmslofti: „Hestamenn eru upp til hópa lífsglaðir og skemmtilegir og sinna íþrótt sinni og áhugamáli af mikilli ástríðu,“ segir Heiðar. „Það er glatt á hjalla þar sem hestamenn koma saman og þó svo að hesturinn sjálfur sé í sviðsljósinu á landsmóti gætum við þess að skipuleggja dagskrána þannig að við gefum tíma fyrir skemmtun og afþreyingu inni á milli. Við skipulagningu Landsmóts 2018 höfum við gætt þess að þó svo að dagskráin á keppnisvöllunum snúist um rjómann af bestu hestum og knöpum landsins snýst allt fyrir utan keppnissvæðin um að láta gestum líða vel og skapa skemmtilega fjölskyldustemningu þessa átta daga sem mótið varir.“

Lifandi tónlist á kvöldin

Allt svæði Fáks í Víðidal verður undirlagt og verður margt um að vera, að sögn Heiðars. „Við skipuleggjum fjölbreytta skemmtidagskrá fyrir börnin með vinsælum skemmtikröftum og bjóðum upp á góða leikaðstöðu fyrir yngstu gestina. Einnig verður risaskjá komið fyrir þar sem við getum fylgst með leikjum á heimsmeistaramótinu í fótbolta. Á kvöldin, eftir að keppnisdagskrá landsmótsins lýkur, tekur síðan við landsliðið í lifandi tónlist og verður t.d. efnt til gítarveislu, kántrítónleika og haldin tvö stór sveitaböll.“

Margir gestanna og keppendanna hafa ferðast um langan veg til að taka þátt í landsmótinu og hefur gott tjaldsvæði verið útbúið fyrir þá sem vilja leggja þar húsvagni eða reisa tjald. „Í hugum margra er það hluti af töfrum landsmótsins að upplifa útilegustemninguna á tjaldsvæðinu og má reikna með að allstórar tjaldbúðir rísi steinsnar frá keppnissvæðinu. Þar er aðbúnaður eins og best verður á kosið og gestum býðst að kaupa aðgang að fráteknu tjaldstæði með rafmagnstengingu.“

Freistingar af ýmsum toga

Raunar má heyra á Heiðari að gestir landsmótsins geti fundið allt sem þá vantar á mótssvæðinu sjálfu. „Reiðhöll Fáks verður breytt í matarhöll þar sem kaupa má ljúffengar veitingar og einnig verða á svæðinu matsöluvagnar sem selja bragðgóðan götumat. Við hlið reiðhallarinnar mun rísa risastórt tjald sem m.a. hýsir skjáinn fyrir fótboltaleikina og verður líka vettvangur tónleika á meðan á mótinu stendur,“ útskýrir Heiðar. „Í öðru stóru tjaldi koma síðan verslanir, hönnuðir og handverksfólk sér fyrir og selja fjölbreyttan varning sem í mörgum tilfellum er tengdur hestamennskunni. Þá verður markaðs- og kynningarverkefnið Horses of Iceland með sitt eigið glæsilega tjald þar sem fræðast má um íslenska hestinn og allt sem honum við kemur.“

Landsmót hestamanna er fyrir löngu orðið alþjóðlegur viðburður og segir Heiðar að á undanförnum mótum hafi um fjórðungur gesta komið frá útlöndum. „Miðað við forsölu er útlit fyrir að hlutfall útlendinga verði heldur hærra í ár. Hjálpar mögulega til að mótið skuli vera haldið í Reykjavík, sem auðveldar erlendum gestum að ferðast á mótsstaðinn og finna sér gistingu. Svo er líka aldrei að vita nema að við fáum til okkar einhverja af þeim þúsundum ferðamanna sem verða á landinu um landsmótsvikuna og kíkja á mótið til þess að upplifa þá hátíðarstemningu sem þar er án þess endilega að hafa ferðast gagngert til landsins vegna íslenska hestsins.“

Mikil stemning í kringum fótboltaleikina

Finna má ófáa fótboltaunnendur á meðal hestafólksins á landsmótinu og á Heiðar von á því að mjög líflegt verði fyrir framan risaskjáinn þegar leikir í HM standa yfir. Vildi svo til að landslið Íslands keppti á EM í knattspyrnu síðast þegar landsmót var haldið og þegar leikir stóðu yfir mátti heyra fagnaðarlætin óma um allt mótssvæði. „Ég man að þegar mótið var haldið á Vindheimamelum árið 2011 dugði að hafa eitt lítið sjónvarp úti í horni og söfnuðust þar saman 20 manns í kringum tækið og fylgdust með leikjunum. Þegar kom að keppni Íslands á Evrópumeistaramótinu varð sannkölluð sprenging og sem betur fer var útbúin mjög góð aðstaða til að horfa á leikina. Var ógleymanlegt að fylgjast með velgengni íslenska liðsins og fagna með hundruðum spenntra hestamanna.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert