Líkamleg heilsa knapa skiptir máli

Vilfríður Sæþórsdóttir er vanur knapi og keppti á landsmótinu.
Vilfríður Sæþórsdóttir er vanur knapi og keppti á landsmótinu. mbl/Arnþór Birkisson

Vilfríður Sæþórsdóttir er meistaranemi í íþróttum og þjálfun við Háskólann í Reykjavík. Hún er einnig mikil hestakona og hafði nýlokið keppni þegar blaðamaður hitti hana á landsmótssvæðinu í Víðidal.

Í gær flutti hún erindi á mótinu um lokaverkefni sitt sem fjallar um líkamlegar mælingar knapa og ávinning þess að nýta slíkar mælingar betur. Vilfríður segir nauðsynlegt að mæla líkamlega og hugræna burði knapa, líkt og gert er með íþróttamenn í öðrum greinum. „Við eigum engar upplýsingar um knapana. Þetta skiptir máli og eru sífellt fleiri íþróttagreinar að innleiða slíkar mælingar,“ segir Vilfríður.

Faglega þekkingu vantar

Landslag íþróttaþjálfunar byggist í æ meira mæli á tölulegum upplýsingum og mælingum að sögn Vilfríðar og því liggur beinast við að innleiða það einnig í hestaíþróttina. „Markmiðið er að að fá auknar upplýsingar um íþróttamanninn til að geta gert betur. Takmarkið er líka að auka faglega þekkingu í kringum afrekshópana í hestaíþróttinni sem hefur vantað í gegnum tíðina,“ segir Vilfríður. Rannsókn hennar felst í að mæla hvernig íslenskt afreksfólk í hestaíþróttinni er á sig komið líkamlega og andlega og hvað megi bæta. „Í grunninn skiptir þetta máli. Þetta eru íþróttamenn og hugsa eins og íþróttamenn. Við þurfum bara að innleiða meiri íþróttahugsun í alla umgjörð sportsins.“ Vilfríður segir jafnframt þessa hlið íþróttarinnar lítið hafa verið skoðaða í rannsóknum áður. „Við búum ekki að rannsóknum um þetta efni. Ég rakst þó á eina erlenda rannsókn þar sem er skoðað hvort knapar þurfi að æfa aukalega. Þar var sýnt fram á að knapar þurfi í raun að æfa aukalega utan við útreiðartúra. Það gefur vísbendingar.“

Hugræn færni líka mikilvæg

Vilfríður notast við staðlaðar mælieiningar í prófunum þar sem knaparnir eru prófaðir í bæði líkamlegri og hugrænni getu. Hún hefur þegar mælt tvo hópa; afrekshóp ungmenna á aldrinum 16-21 árs og hóp A-liðs, sem er eldri hópur og meirihlutinn karlmenn. „Líkamlegu mælingarnar mæla styrk en við mælum einnig hæð, þyngd og fitu. Hugrænu mælingarnar snúa að hugrænni færni knapans, t.d. hvernig hann bregst við pressu, hvaða áhrif streita og álag hafa á frammistöðu hans og svo framvegis. Í framhaldi af þessu er hægt að útbúa æfingaplan sem þjálfar upp veikleika hans, t.d. með markmiðasetningu og jákvæðu sjálftali.“

Gott jafnvægi lykilatriði

Vilfríður segir knapa þurfa að búa að ákveðnum styrk til að geta beitt hestinum rétt. „Knapar þurfa t.d. að vera stöðugir í mjöðmum. Þeir þurfa að vera með rétta líkamsstöðu og í jafnvægi til að geta beðið hestinn að vera í réttri líkamsstöðu og beitt sér af fullum krafti.“ Hún segir enn fremur að knapar geti öðlast betri líkamsstöðu og form með því að stunda ákveðnar íþróttir, t.d. sund, jóga, pílates og dans. „Dansinn æfir taktinn og hreyfingu með annarri manneskju. Jóga og pílates snúast um að æfa jafnvægi og líkamsmeðvitund, sem er svo mikilvæg á hestbaki,“ segir Vilfríður og segist vita af mörgum hestamönnum sem stundi jóga og pílates að staðaldri.

Að sögn Vilfríðar þurfi í auknum mæli að betrumbæta umgjörð í kringum afrekshópana: „Við þurfum að innleiða meiri íþróttahugsun í alla umgjörð sportsins. Þeir fá litla sem enga fræðslu um líkamlega jafnt sem andlega hlið íþróttarinnar. En þetta eru íþróttamenn og hugsa eins og íþróttamenn og því ætti að aðstoða þá meira.“

Formið tengist frammistöðu

Að sögn Vilfríðar bendir allt til þess að knapar í góðu líkamlegu formi nái betri árangri. „Ég get ekki fullyrt það en ég tel að líkamlegt atgervi tengist að einhverju leyti frammistöðu í hestaíþróttinni, líkt og það gerir í öðrum íþróttum. Auðvitað verður það þó aldrei jafn mikið. Aukin þyngd knapa hefur t.d. áhrif á jafnvægi hestsins. En hestaíþróttin er í grunninn fagurfræðileg íþrótt líkt og fimleikar og því hefur form áhrif á heildarmyndina.“

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »