Kveikur og Þráinn stálu senunni

Vökull frá Efri-Brú og Ævar Örn Guðjónsson.
Vökull frá Efri-Brú og Ævar Örn Guðjónsson. mbl/Arnþór Birkisson

Fjöldi landsmótsgesta fylgdist með yfirlitssýningum hryssna á kynbótavellinum sem fram fóru í Víðidal í dag. Umtalað er hversu glæsilegar sýningarnar eru í ár og ljóst að uppskera hrossaræktunar í landinu fer fram úr björtustu vonum. Kveikur, sem fékk ótrúlega einkunn í fordómum eða 10 í tölti, hækkaði sig í 10 í dag fyrir vilja/geðslag og er annar í 6 vetra flokki stóðhesta. Þráinn frá Flagbjarnarholti vakti sömuleiðis mikla athygli en hann varð efstur með 8,92.

B-úrslit í B-flokki fóru fram fyrr í dag og urðu efstir þeir Þrumufleygur frá Álfhólum og Viðar Ingólfsson með einkunnina 8,79. Þeir mæta því í A-úrslit í B-flokki á sunnudaginn.

Í yfirliti á yngsta flokki hryssna í dag varð efst Askja frá Efstu-Grund sem hækkaði sig verulega milli sýninga og hlotnaðist fyrsta sætið með aðaleinkunn 8,38.

Í B-úrslitum í unglingaflokki urðu efstir Kári Kristinsson og Þytur frá Efri-Gegnishólaparti og mæta því aftur í A-úrslit á sunnudaginn. Þeir sigruðu með einkunnina 8,62. 

Í barnaflokki urðu efstir þeir Ragnar Snær Viðarsson og Kamban frá Húsavík með 8,73. Þeir mæta þvi í A-úrslit á sunnudag.

Í kvöld kl. 20:30 fara fram kynbótasýningarnar sívinsælu þar sem ræktunarbúin sýna afrakstur ræktunar sinnar.

mbl/Arnþór Birkisson
Frá úrslitum í B-flokki.
Frá úrslitum í B-flokki. mbl/Arnþór Birkisson
mbl/Arnþór Birkisson
mbl.is