Landsmót: Setning og helstu úrslit

Við setninguna höfðu fulltrúar frá öllum hestamannafélögunum stillt sér upp ...
Við setninguna höfðu fulltrúar frá öllum hestamannafélögunum stillt sér upp og riðu saman á hringvellinum. Eggert Jóhannesson

Landsmót hestamanna var formlega sett í gærkvöldi við glæsilega athöfn í Víðidal. Athöfnin hófst með hópreið þar sem þrír fulltrúar úr öllum aðildarfélögum Landssambands hestamanna röðuðu sér upp á hringvellinum. Magni Ásgeirsson tók við og stjórnaði fjöldasöng og Dísella Lárusdóttir óperusöngkona söng nokkur lög fyrir áhorfendur, þ.a.m. þjóðsönginn. Að því loknu riðu knaparnir nokkra hringi á vellinum. Borgarstjórinn Dagur B. Eggertsson hélt stutta tölu, þar sem að borgin er gestgjafi í ár. Hann sagði þar m.a. að Reykjavík væri höfuðborg íslenska hestsins og að það væri ávallt velkomið að halda landsmót í borginni. Telja fróðir menn að um 5-6 þúsund manns hafi verið í Víðidalnum í gærkvöldi.

Talið er að 5-6 þúsund manns hafi verið viðstaddir setninguna ...
Talið er að 5-6 þúsund manns hafi verið viðstaddir setninguna og tekið þátt í fjöldasöng í brekkunni. Eggert Jóhannesson

Nýjustu úrslit og dagskrá

Í gær fór fram forkeppni í tölti og urðu þar jafnir þeir Árni Björn Pálsson og Jakob Svavar Sigurðsson með 8,93. Árni sýndi Ljúf frá Torfunesi og Jakob Júlíu frá Hamarsey. Einnig fóru fram milliriðlar í A-flokki þar sem Hafsteinn frá Vakurstöðum og Teitur Árnason héldu forystunni, með 8,89 í einkunn. Þá stendur Arnór Dan Kristinsson efstur í ungmennaflokki eftir keppni í milliriðlum en hann sýndi Dökkva frá Ingólfshvoli og fékk 8,74 í heildareinkunn. 

Þá er yfirlitssýningum hryssna lokið. Tign frá Jaðri hélt efsta sætinu í flokki 7 vetra og eldri hryssna en aðeins ein komma skildi að þær þrjár efstu. Tign hlaut 8,73 í aðaleinkunn, sýnd af Teiti Árnasyni.  Í flokki 6 vikna hryssna hélt Katla frá Hemlu II einnig sínu sæti á toppnum og endar með aðaleinkunnina 8,64. Árni Björn Pálsson sýndi Kötlu. Í flokki 5 vikna hryssna hélt Sigyn frá Feti sínu sæti og varð efst með 8,56, var sýnandi hennar Ólafur Andri Guðmundsson. Askja frá Efstu-Grund skaust úr fjórða sætinu í það efsta í flokki 4v hryssna og er með 8,38 í aðaleinkunn. Það var Hlynur Guðmundsson sem sýndi hryssuna. 

Í dag, föstudag, hefst dagurinn með B-úrslitum B-flokks, unglingaflokks og barnaflokk sem stendur yfir á aðalvellinum fram til 10:30. Á kynbótavellinum hefst yfirlitsýning stóðhesta kl. 9:40 og stendur með hléum fram til 16:15. Seinni umferðir í 150 og 250 metra skeiði eru kl. 16:15 á skeiðbrautinni og frá 18:30-20 er verðlaunaafhending fyrir kynbótahryssur á aðalvelli. B-úrslit í tölti eru eru í kvöld og að þeim loknum eru ræktunarbússýningar fram til kl. 22:15.

Skemmti- og fræðsludagskrá föstudags

Eitthvað verður um að vera í allan dag á svæðinu. Fjölbreytt fræðslu- og skemmtidagskrá í Horses of Iceland tjaldinu mun halda áfram en rétt fyrir 10 hefst fyrirlestur á ensku um fóðrun folaldsmera og folalda og síðdegis eða 17:35 verður fjallað almennt um fóðrun hesta á Íslandi. Í hádeginu eða 12:45 verður meistaranemi frá sænska landbúnaðarháskólanum með erindi á ensku sem ber heitið „Hugur vs. líkami: Erfðir á bak við frammistöðu í skeiðkappreiðum.

Skemmtidagskráin í kvöld hefst 22:30 með kántrýtónleikum og stórdansleik með Helga Björns og Reiðmönnum vindanna, ásamt Axel Ó. og Rúnari F.

mbl.is