Ég ætlaði mér stóra hluti

„Ég ætlaði mér stóra hluti. Við unnum þessa grein í fyrra og hún landaði þremur titlum fyrir mig í fyrra í Meistaradeildinni, svo ég gerði mér væntingar," sagði Jakob Svavar Sigurðsson, eftir að hann og Júlía frá Hamarsey urðu í efsta sæti annað árið í röð í slaktauma­tölti í Meist­ara­deild­inni í hestaíþrótt­um en keppt  var í Sam­skipa­höll­inni í gærkvöldi.

Þrátt fyrir að hryssan Júlía sé ekki komin í toppform, viðurkennir Jakob að annað en sigur hefði verið vonbrigði. 

„Ég var seinn að byrja í þjálfun í vetur, svo hún er ekki alveg komin í toppform, svo ég var ekki alveg eins öruggur, en ég vissi að hún myndi standa sig vel. Annað en að vinna hefði verið vonbrigði," sagði Jakob. 

Top Reiter-liðið fékk liðaplattann í slaktaumatöltinu. Liðið hélt efsta sætinu í liðakeppninni með 101 stig. Teitur Árnason og Brúney frá Grafarkoti urðu í öðru sæti í einstaklingskeppni, en þau keppa fyrir Top Reiter. Teitur var ánægður með árangurinn. 

„Þetta er framar vonum. Auðvitað ætluðum við að gera okkar besta. Við erum mjög ánægðir að ná þessu og svo var persónulega mjög gott að ná öðru sæti. Það voru dýrmæt stig í baráttuna sem fram undan er," sagði Teitur. 

Myndband af tilþrifum keppninnar má sjá í spilaranum hér að ofan ásamt viðtölum við Jakob og Teit. 

Efstu knapar kvöldsins.
Efstu knapar kvöldsins.
Sigurvegararnir Jakob S. Sigurðsson og Júlía frá Hamarsey.
Sigurvegararnir Jakob S. Sigurðsson og Júlía frá Hamarsey.
Top Reiter er stigahæsta liðið. Frá vinstri Teitur Árnason, Eyrún …
Top Reiter er stigahæsta liðið. Frá vinstri Teitur Árnason, Eyrún Ýr Pálsdóttir, Matthías Leó Matthíasson og Árni Björn Pálsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert