Æsispennandi töltkeppni

Frá töltkeppninni í kvöld.
Frá töltkeppninni í kvöld.

Æsispennandi töltkeppni er lokið í Meistaradeildinni í hestaíþróttum en þá er einungis ein grein eftir og hefst keppni í flugskeiði seinna í kvöld.

Jakob Svavar Sigurðsson var með nokkuð örugga forystu eftir forkeppni með 8,63 í einkunn. Í öðru sæti var Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir á Kveik frá Stangarlæk en þau hlutu 8,07 í einkunn. Þetta var frumraun Kveiks í keppni og biðu margir spenntir eftir að sjá hann enda sló hann heimsmet í fyrra þegar hann hlaut hæsta kynbótadóm sem klárhestur hefur hlotið. Í þriðja sæti var síðan Hulda Gústafsdóttir á Draupni frá Brautarholti með 7,90 í einkunn.

Úrslitin voru æsispennandi en eftir fyrsta atriðið, hægt tölt, voru þau þrjú jöfn, Jakob, Viðar Ingólfsson og Elin Holst með 8,50 í einkunn. Eftir hraðabreytingar tók Jakob forystuna en hann hlaut 8,67 fyrir það atriði. Annar var Viðar á Maístjörnu með 8,00 í einkunn.

Eftir greiða töltið var ljóst að Jakob og Júlía sigruðu með 8,44 í lokaeinkunn en Aðalheiður og Kveikur hlutu hæstu einkunn fyrir greiða töltið eða 9,0 og náðu að tryggja sér annað sætið með 8,22 í lokaeinkunn. Í þriðja sæti varð Viðar Ingólfsson með 7,94 í einkunn.

Liðaplattann hlaut lið Hrímnis/Export hesta en það er líka efst í liðakeppninni. Eftir töltið er Top Reiter komið í annað sætið og Gangmyllan í það þriðja. Jakob er enn efstur í einstaklingskeppninni en nú eru 5,5 stig á milli hans og Aðalheiðar sem er í öðru sæti.

mbl.is