Íslenskir yfirburðir á HM í Berlín

Áhorfendur á mótinu voru um 10.000. Þar af fylgdu 2.000 …
Áhorfendur á mótinu voru um 10.000. Þar af fylgdu 2.000 Íslendingar. Ljósmynd/Þórunn Eggertsdóttir

Íslendingar báru af á heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem lauk í Berlín í gær. Íslenska sveitin hlaut sex af níu gullverðlaunum í meistaraflokki og fékk að launum liðabikarinn. Þá unnu Íslendingar ein verðlaun í flokki ungmenna og fern í flokki kynbótahrossa. Er þetta besti árangur landsliðsins frá upphafi.

Sigurbjörn Bárðarson er landsliðsþjálfari Íslands og þekkir heimsmeistaramótið út og inn enda tekið þátt, ýmist sem knapi eða þjálfari, frá árinu 1977. Hann segir ferðina hafa verið með bestu landsliðsferðum frá upphafi. Árangurinn skýrist að hluta til af nýjum og fagmannlegri aðferðum við utanumhald landsliðsins, sem tekið var upp á í fyrra.

Í stað þess að valið væri í landsliðið út frá árangri á einu móti árlega, sé nú haldið úti sérstöku landsliði sem æfi saman allan ársins hring undir traustri stjórn landsliðsþjálfara og annarra fagmanna. Því fylgi þrekmælingar, ráðleggingar varðandi mataræði og fleira. 

Sigurbjörn segir að mikil vinna sé að baki mótinu. Íslenska sveitin var komin til Berlínar viku fyrir mót til undirbúnings, og daglega séu haldnir fundir þar sem farið er yfir árangur dagsins, næstu skref og hvað megi bæta. Það hafi heldur betur skilað sér.

Jóhann Skúlason varð þrefaldur heimsmeistari á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í …
Jóhann Skúlason varð þrefaldur heimsmeistari á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Berlín. Ljósmynd/LH

Gullverðlaunum á mótinu fylgir sjálfkrafa þátttökuréttur á næsta heimsmeistaramóti og getur íslenska liðið því sent fullskipaða sveit til viðbótar við þá sem nú hlutu gullverðlaun. Af þeim sökum getur Ísland sent umtalsvert fleiri þátttakendur til leiks á næsta móti, sem fram fer í Herning í Danmörku að tveimur árum liðnum. „Við erum búin að leggja línurnar fyrir firnasterkt lið þá,“ segir Sigurbjörn.

Íslensk lög banna innflutning á hestum og því neyðast menn til að selja frá sér hestana að móti loknu. Því fylgir alltaf viss tregi enda þarf hver knapi því að finna sér nýjan hest, og eru afrekshross ekki á hverju strái. Erlendir knapar geti aftur á móti haldið sig við afrekshesta sína árum saman. Í því ljósi er árangur íslensku sveitarinnar enn stórbrotnari.

Sigurbjörn segir að undirbúningur undir næsta mót sé þegar hafinn, en næst á dagskrá landsliðsins er Norðurlandamót sem fram fer á næsta ári í Finnlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert