Meistaradeild æskunnar að hefjast

Meistaradeild Líflands og æskunnar í hestaíþróttum hefst á morgun, sunnudag, með keppni í Hrímnis-fjórgangi í Samskipahöllinni í Spretti. Mótið hefst kl. 12 og þar munu 40 keppendur í 10 liðum etja kappi í krefjandi keppni.

Að forkeppni lokinni verður gert hlé og síðan eru riðin B-úrslit. Sigurvegari þeirra úrslita öðlast þó ekki keppnisrétt í A-úrslitum, einfaldlega vegna þess að það yrði of mikið álag á hestinn á of stuttum tíma. Hins vegar hlýtur hann dýrmæt stig í keppni um stigahæsta knapann í lok deildarinnar í vor, um leið og allir í B-úrslitum öðlast góða reynslu í því að ríða úrslit.

Rúsínan í pylsuendanum eru svo A-úrslitin, þar sem fimm efstu knapar úr forkeppni fá annað tækifæri til að sýna hvað í þeim býr og þar getur allt gerst hjá toppknöpum á góðum og vel þjálfuðum hestum sínum.

Á vefnum www.mdeild.is fá finna ýmsar upplýsingar um Meistaradeild Líflands og æskunnar í hestaíþróttum, sem og á Facebook-síðunni „Meistaradeild Líflands og æskunnar“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert