„Ekki eins einfalt og það lítur út fyrir að vera“

Árni Björn Pálsson fer heim með farandsbikarinn af Landsmóti í …
Árni Björn Pálsson fer heim með farandsbikarinn af Landsmóti í fjórða skiptið í röð og hefur hann því átt sinn stað heima hjá honum síðan árið 2014. mbl.is/Hákon Pálsson

Árni Björn Pálsson og hesturinn Ljúfur frá Torfunesi stóðu uppi sem Landsmótssigurvegarar eftir sterk úrslit í tölti meistara á Landsmóti hestamanna í kvöld. Er þetta fjórða Landsmótið í röð sem Árni Björn hlýtur þennan titil, en annað skiptið sem hann sigrar á Ljúf.

Hlutu þeir einkunnina 9,17.

„Ég finn aldrei fyrir stressi, enda búinn að sitja á hesti frá því að ég var krakki. Þetta er í raun það eina sem ég kann,“ segir Árni Björn í samtali við mbl.is. 

Fyrir töltið voru helstu spámenn á einu máli um það að Árni Björn og Ljúfur væru sigurstranglegasta parið. Þrátt fyrir það kveðst Árni ekki hafa fundið fyrir utanaðkomandi pressu. 

„Ég set auðvitað pressu á sjálfan mig að standa mig en svona utanaðkomandi hlutir hafa ekki mikil áhrif á mig.“

Þrítugsgjöf til Sylvíu

Árni Björn gaf unnustu sinni, Sylvíu Sigurbjörnsdóttur, hestinn Ljúf í þrítugsgjöf, en hefur sjálfur verið að keppa á honum síðan og saman urðu þeir Landsmótssigurvegarar í tölti árið 2018. Sylvía fær samt að fara á bak hestinum stöku sinnum, en hún er einnig landsþekktur knapi og tamningamaður. 

Sú ákvörðun að gefa Sylvíu hestinn er það skynsamlegasta sem Árni Björn hefur gert á sínum ferli sem hestamaður, að eigin sögn. „Ef ég hefði átt hann hefði ég verið löngu búinn að selja hann og reyna að græða eitthvað á honum, sem hefði auðvitað verið alger vitleysa.“

Sylvía, sem er að aðstoða Árna við að taka af Ljúf hnakkinn og hlífarnar meðan blaðamaður ræðir við hann, tekur undir þessi orð hans. Þau eru einnig sammála um það að Ljúfur sé einstakur hestur. 

„Þetta er einstakur gæðagripur, sannkallaður höfðingi.“

Árni Björn er sannfærður um að hann og Ljúfur eigi nóg inni, enda sé hesturinn sterkur, frískur og í fullu fjöri. 

Ljúfur er sterkur, frísku og fullur af fjöri, þeir eiga …
Ljúfur er sterkur, frísku og fullur af fjöri, þeir eiga því nóg inni að mati Árna Björns. mbl.is/Hákon Pálsson

Tæknilega erfið grein

Töltið hefur verið uppáhaldskeppnisgrein Árna Björns frá barnsaldri. „Það er svo gaman að vera á góðu tölti.“

Spurður hvað það sé sem geri töltið svona sérstakt sem keppnisgrein segir hann að um sé að ræða tæknilega erfiða grein. Þar reyni sérstaklega mikið á jafnvægi og samspil og það sé mikilvægt að gefa réttar ábendingar á hárréttum tíma, það krefjist mikillar orku og einbeitingar og reyni því talsvert á knapann. 

„Þetta er ekki eins einfalt og það lítur út fyrir að vera. Það tekur langan tíma að þjálfa hestinn upp í að gera þetta feilalaust.“

Eins og hver önnur vinna

Á Landsmóti sýndi Árni Björn hvorki meira né minna en tuttugu og sjö kynbótahross milli þess sem hann keppti, en hann var ekki bara efstur í töltinu heldur einnig í B-flokki gæðinga. Úrslit í þeirri grein fara fram á morgun. 

„Þegar maður er að þjálfa og sýna svona marga hesta þá kemst þetta upp í rútínu og verður eins og hver önnur vinna.“

Á veturna fer hann á  þrettán hross á dag að meðaltali en á dögum þar hann tekur þátt í sýningum eða keppnum þá fer sú tala oft upp í þrjátíu hross. 

Hann kveðst ekki endilega finna fyrir því í líkamanum þó hann fari á þrjátíu hross sama daginn, en bendir á að það skipti máli að halda sér í ágætu formi bæði líkamlega og andlega.

mbl.is