Krýsuvíkurleiðin að titlinum

Sigurður, Hátíð og Úlfar, eigandi Hátíðar.
Sigurður, Hátíð og Úlfar, eigandi Hátíðar. mbl.is/Þóra Birna

„Hún toppar sig þegar hún á að toppa sig,“ segir Sigurður Steingrímsson um merina Hátíð frá Forsæti II, en þau eru Landsmótssigurvegarar í unglingaflokki árið 2022.

Sigurður og Hátíð fóru sannkallaða Krýsuvíkurleið að titlinum, en í forkeppni raðaði parið sér í áttunda sæti. Eftir milliriðil féllu þau niður í það tíunda og þurftu því að sigra B-úrslitin til þess að öðlast þátttökurétt í A-úrslitum, þar sem þau báru svo sigur úr býtum með einkunnina 8,97. 

„Við vorum ekki sterkust í forkeppni eða milliriðli, en Hátíð veit hvenær hún á að standa sig.“

Sannkallaður gæðingur

Í úrslitum voru fyrst lesnar upp einkunnir fyrir hæga töltið og þá sá Sigurður að það yrði á brattann að sækja fyrir sig að ná efsta sætinu. 

„Ég varð helvíti stressaður og þurfti þess vegna að slá aðeins í og vera harður til að ná sigrinum.“ Það gerði hann og hækkaði sig því hressilega í bæði brokki og yfirferðartölti. 

„Ef þú þarft að lýsa gæðingi þá er þetta hrossið, þessi meri er sannkallaður gæðingur,“ segir Sigurður um Hátíð. 

Fimm folalda móðir

Hátíð er fimm folalda móðir en það var ekki að sjá á sýningunni. 

„Hún fór á Landsmót árið 2014 fimm vetra í kynbótadóm og fékk 9,5 frá þremur dómurum. Svo eignaðist hún folald og mætti aftur á Landsmót sjö vetra þar sem hún keppti í tölti og fékk 8,44 og 8,8 í A-úrslitum í B-flokki meistara. Svo eignaðist hún enn annað folald en mætti aftur á keppnisvöllinn og endaði í þriðja sæti í A-úrslitum í B-flokki 2018.“

Þá bætir hann við að nú, fjórum árum seinna, mæti hún aftur á Landsmót og fari loks þaðan sem sigurvegari. 

Stóð við stóru orðin

Sigurður sjálfur tók þátt á síðasta Landsmóti þar sem hann endaði í öðru sæti á merinni Elvu frá Auðsholtshjáleigu. Sú meri var einnig í þessum úrslitum, en hún bar nú knapann Sigurbjörgu Helgadóttur og enduðu þær í fimmta sæti.

Úlfar Albertsson er eigandi Hátíðar. 

„Ég hringi í Úlfar í vetur, þegar ég vissi að hún væri geld, og ég spurði hvort það væri ekki kominn tími til þess að vinna Landsmót. Hann gaf mér tækifæri til að standa við stóru orðin og ég gerði það.“

Sigurður Steingrímsson fagnaði titlinum með gestum í brekkunni að lokinni …
Sigurður Steingrímsson fagnaði titlinum með gestum í brekkunni að lokinni verðlaunaafhendingu. Ljósmynd/Óla myndir
mbl.is