„Mamma var ólétt að mér þegar hún tamdi hann“

Kristín Eir og Þytur ná vel saman.
Kristín Eir og Þytur ná vel saman. mbl.is/Þóra Birna

Hin tólf ára gamla Kristín Eir Hauksdóttir og hesturinn hennar Þytur frá Skáney eru Landsmótssigurvegarar í barnaflokki árið 2022, með 9 í einkunn.

„Ég bjóst ekki alveg við þessu en ég fór í 9,35 á honum í vor, þannig þá sáum við að þetta gæti alveg gerst.“

Kristín og Þytur gerðu gott mót en þau héldu efsta sætinu í gegnum forkeppni, milliriðil og innsigluðu svo yfirburði sína í úrslitum. 

Hún lýsir Þyt sem góðum hesti og segir að þau nái vel saman. „Hann getur verið svolítið viljugur þegar við komum inn á völlinn og hann getur alveg verið með skap, en hann er mjög góður.“

Heimaræktaður

Þytur er úr ræktun fjölskyldunnar og Kristín hefur því fengið að fara á hann stöku sinnum í gegnum tíðina. Þau byrjuðu þó ekki að keppa saman fyrr en í vor og settu þá stefnuna á Landsmót. Kristín ætlar sér að halda áfram að keppa á honum. 

Spurð hvort hún hafi þá fylgst með Þyt frá því að hann var folald, bendir hún á að því sé í raun öfugt farið. „Hann er svolítið eldri en ég, en hann er sautján og ég tólf. Mamma var ólétt að mér þegar hún tamdi hann.“

Kristín Eir og Þytur eru Landsmótssigurvegarar í barnaflokki.
Kristín Eir og Þytur eru Landsmótssigurvegarar í barnaflokki. Ljósmynd/Óla myndir

Hreyfir minnst sex hross á dag

Kristín er mikil hestakona og hefur verið dugleg að taka þátt í keppnum, eftir að hún náði aldri til þess að taka þátt í barnaflokki. Hún hefur þó ekki keppt áður á Landsmóti hestamanna. 

Hún segir það mjög skemmtilegt að taka þátt á Landsmóti en kveðst ekki pæla mikið í umhverfinu. Þá segist hún heldur aldrei verða stressuð. 

Stefnan er sett á atvinnuhestamennsku og spurð hvað sé skemmtilegast við hestamennsku svarar Kristín einfaldlega: „Allt.“

Hún eyðir miklum tíma í hesthúsinu og fer á bak á hverjum degi, aldrei færri en sex reiðtúra. 

mbl.is