Nígería fær 48 stunda frest

Mikil vonbrigði voru í Nígeríu þegar landslið þjóðarinnar komst ekki ...
Mikil vonbrigði voru í Nígeríu þegar landslið þjóðarinnar komst ekki áfram úr riðlakeppni HM. Reuters

Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, gaf í morgun Nígeríumönnum 48 klukkustunda frest til að koma málum sínum í lag, annars yrði landið sett í keppnisbann í alheimsfótboltanum.

Goodluck Jonathan, forseti Nígeríu, tilkynnti í vikunni að vegna slaks árangurs landsliðs þjóðarinnar á HM yrði það dregið út úr öllum alþjóðlegum mótum í tvö ár.

FIFA hefur brugðist hart við þessu, enda hafa aðildarþjóðir þess aldrei fengið að komast upp með að ráðamenn þeirra hafi afskipti af knattspyrnumálum.

„Nígería gekk of langt og landið verður sett í keppnisbann ef ekki verður breyting á innan 48 klukkutíma. Það er ekki hægt að líða að stjórnvöld banni landsliði að taka þátt í alþjóðlegri keppni," sagði Jerome Valcke, fulltrúi FIFA.

Íþróttamálaráðherra Nígeríu, Isa Bio, sagði í morgun að sitt fólk væri tilbúið til að funda með FIFA og leysa málið á viðunandi hátt.

mbl.is

Bloggað um fréttina