Krul: Sagði þeim að ég vissi hvar þeir myndu skjóta

Tim Krul ver síðustu vítaspyrnu Kostaríku frá Michael Umana og ...
Tim Krul ver síðustu vítaspyrnu Kostaríku frá Michael Umana og kemur Hollandi í undanúrslit HM. AFP

Tim Krul, markvörður Hollendinga sem kom þeim í undanúrslit heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu með því að verja tvær vítaspyrnur frá Kostaríkumönnum eftir að hafa verið skipt inn á fyrir vítakeppnina, kveðst hafa beitt sálfræðinni gegn þeim.

Sjónvarpsáhorfendur sáu að Krul gekk um fyrir spyrnurnar og í átt að vítaskyttum Kostaríku áður en hann tók sér stöðu í markinu.

„Ég horfði á vítaspyrnurnar sem þeir tóku í leiknum við Grikkland, fór vel yfir hvernig þeir skutu þar og sagði svo við leikmennina áður en þeir spyrntu að ég vissi hver þeir ætluðu að skjóta, til þess að taka þá á taugum,“ sagði Krul glottandi við fréttamenn.

„Kannski heppnaðist þetta. Ég gerði þetta einu sinni við Frank Lampard. Ég sagði honum að ég vissi hvar hann ætlaði að skjóta og varði svo frá honum. Ég reyndi bara að leika sama leik og er afar ánægður með að það skyldi heppnast,“ sagði Tim Krul.

mbl.is

Bloggað um fréttina