Möguleg HM stjarna: Heldur Salah uppteknum hætti á HM?

Mohamed Salah með gullskóinn.
Mohamed Salah með gullskóinn. AFP

Mohamed Salah, sóknarmaður Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hefur verið í ótrúlegu formi á þessari leiktíð. Hann var valinn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á dögunum en hann hefur skorað 43 mörk fyrir félagið í öllum keppnum.

Salah er fæddur 15. júní 1992 en það má með sanni segja að hann hafi skotið Egyptum á HM því hann skoraði bæði mörk liðsins í 2:1 sigri á Kongó í umspili um laust sæti á mótinu. Síðara mark hans kom af vítapunktinum á 94. mínútu uppbótartíma en egypskir sjónvarpsmenn grétu þegar Salah skoraði markið. Hann spilaði sinn fyrsta landsleik árið 2011 og á að baki 57 landsleiki fyrir Egypta þar sem hann hefur skorað 33 mörk.

Ætli liðið sér að fara áfram í útsláttarkeppnina þarf Salah að halda uppteknum hætti og skora mörkin. Þrátt fyrir að vera einungis 25 ára gamall er Salah fimmti leikjahæsti leikmaður egypska hópsins sem fer til Rússlands.

Morgunblaðið heldur áfram að telja niður fyrir fyrsta leik Íslands á HM en hann er eftir 29 daga