Tilbúinn að fylla skarð Hannesar

Rúnar Alex Rúnarsson.
Rúnar Alex Rúnarsson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Rúnar Alex Rúnarsson markvörður danska úrvalsdeildarliðsins Nordsjælland segist alveg tilbúinn að fylla skarð Hannesar Þórs Halldórssonar fari svo að Hannes geti ekki staðið á milli stanganna gegn Argentínu í fyrsta leik Íslands á HM í Rússlandi.

Hannes varð fyrir meiðslum í nára í vikunni í leik með Randers gegn Lyngby og þurfti að hætta leik eftir fyrri hálfleikinn. Hannes hefur verið aðalmarkvörður íslenska landsliðsins og er að sjálfsögðu í HM-hópnum en honum til trausts og halds eru Rúnar Alex og Frederik Schram en allir markverðirnir í landsliðshópnum spila í Danmörku.

„Ég er hundrað prósent klár að spila fyrsta leikinn fyrir Ísland á HM verði Hannes ekki klár,“ segir Rúnar Alex við vefsíðuna bold.dk en hann átti frábært tímabil með Nordsjælland og var á dögunum útnefndur mikilvægasti leikmaður liðsins, sem hafnaði í þriðja sæti í dönsku úrvalsdeildinni.

„Ég er mjög ánægður með mitt tímabil og að hafa endað það með því að halda markinu hreinu í síðustu tveimur leikjunum,“ segir Rúnar Alex sem á þrjá leiki að baki með íslenska A-landsliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert