Stanslaus HM-viðtöl í Belgíu

Ari Freyr Skúlason í Laugardalnum í gær.
Ari Freyr Skúlason í Laugardalnum í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bakvörðurinn Ari Freyr Skúlason, sem leikur með Lokeren í Belgíu, varð var við mjög mikinn áhuga á íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu þar í landi í vetur. 

„Já ég varð var við mjög mikinn áhuga. Síðustu þrjár vikurnar var ég nánast í viðtölum á hverjum einasta degi. Fólk er mjög spennt fyrir þessu og finnst ótrúlegt að Ísland hafi náð svona langt. Liðsfélagarnir hjá Lokeren velta þessu einnig mjög mikið fyrir sér. Við erum með nokkra unga stráka sem eru miklir fótboltaaðdáendur og miklir stuðningsmenn okkar. Þeir voru alltaf að spyrja mig hvernig þetta yrði og eru mjög spenntir,“ sagði Ari þegar mbl.is ræddi við hann í gær en hann var þá á leiðinni á fyrstu æfingu sína með landsliðinu fyrir HM-törnina. 

„Ég er ekki farinn að finna fyrir auknum fiðringi vegna HM en fyrsta æfingin er í dag og það verður gaman. En ætli þetta verði ekki hjá mér eins og var í Frakklandi. Þá skall þetta á mér þegar ég var kominn á staðinn. Þá hugsaði maður: Þetta verður eitthvað,“ sagði Ari Freyr sem ekki glímir við nein meiðsli eftir tímabilið í Belgíu. 

„Þetta var langt keppnistímabil en mér tókst að halda mér heilum. Ég fékk nokurra daga frí eftir tímabilið og kem því ferskur inn,“ sagði Ari Freyr Skúlason við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert