Argentína hættir við leikinn gegn Ísrael

Ekkert verður af vináttuleik Ísraels og Argentínu af ótta við …
Ekkert verður af vináttuleik Ísraels og Argentínu af ótta við hryðjuverk. AFP

Argentínska landsliðið í knattspyrnu mun ekki spila vináttuleik við Ísrael eins og til stóð en það eru fjölmiðlar í Argentínu sem greina frá þessu í kvöld. Leikurinn átti að fara fram í Jerúsalem á laugardaginn næsta og átti þetta að vera síðasti leikur liðsins áður en landsliðið heldur til Rússlands til þess að taka þátt í heimsmeistaramótinu.

Samtök arabaríkja höfðu hvatt Argentínu til þess að hætta við leikinn en óttast var um bæði öryggi leikmanna og stuðningsmanna liðsins vegna hugsanlegra hryðjuverkaárása. Margir höfðu mótmælt því að leikurinn ætti að fara fram enda stríðsástand í Ísrael í dag vegna deilunnar við Palestínumenn.

Jorge Sampaoli, þjálfari argentínska landsliðsins, og argentínska knattspyrnusambandið reyna nú að finna nýjan andstæðing fyrir heimsmeistaramótið. Eins og staðan er í dag stefnir allt í að liðið spili ekki leik fyrr en 16. júní þegar Argentína mætir Íslandi í D-riðli heimsmeistaramótsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert