Gana verður ágæt prófraun fyrir HM

Alfreð Finnbogason skorar úr vítaspyrnu gegn Noregi.
Alfreð Finnbogason skorar úr vítaspyrnu gegn Noregi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þar sem um verður að ræða síðasta leik okkar áður en flautað verður til leiks á HM er ljóst að við eigum eftir að stilla saman einhverja strengi sem væri gott að sjá að tækist í leiknum við Gana. Ég reikna með að Heimir [Hallgrímsson] leiti enn eftir einhverjum svörum frá okkur,“ sagði Alfreð Finnbogason, landsliðsmaður í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið fyrir æfingu íslenska landsliðsins á Laugardalsvelli í gær. Framundan er, annað kvöld, síðari vináttulandsleikur íslenska landsliðsins áður en HM-ævintýrið hefst í Rússlandi upp úr miðjum mánuðinum. Flautað verður til leiks klukkan 20.

Andstæðingur íslenska landsliðsins á Laugardalsvelli annað kvöld verður landslið Gana. Ganabúar eru ekki á leiðinni á HM með landslið sitt en nýta engu að síður tímann um þessar mundir til þess að viðra landsliðsmenn sína. Gana vann Japan, 2:0, í vináttulandsleik fyrir viku.

Vonandi sleppa allir

„Leikurinn við Noreg á laugardaginn síðasta skilaði okkur bættri leikæfingu og það held ég að sé meðal annars hugsunin með þessum leik við Gana. Vonandi komast allir heilir í gegnum þá viðureign,“ sagði Alfreð sem viðurkenndi að leikmenn og þjálfarar væru lítið farnir að skoða leikskipulag landsliðs Gana í hóp. „Ég á erfitt með að svara þeirri spurningu hvort margt sé líkt með landsliði Gana og Nígeríu sem við mætum á HM. Eitt er þó ljóst að um er að ræða Afríkulið í báðum tilfellum. Mér þykir líklegt að liðunum svipi eitthvað sama hvað leikstíl varðar þótt ekki geti ég fullyrt neitt í þeim efnum.“

Sjáðu viðtalið við Alfreð í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert