Salah líklega ekki klár í fyrsta leik

Mo Salah er vinsæll í Rússlandi.
Mo Salah er vinsæll í Rússlandi. AFP

Egypski sóknarmaðurinn Mo Salah æfði ekki með liðsfélögum sínum í landsliði þjóðarinnar í fótbolta í Grozny í Rússlandi í dag þar sem hann er ekki búinn að ná sér af meiðslum sem hann varð fyrir í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í síðasta mánuði.

Margir rússneskir stuðningsmenn lögðu leið sína á æfingasvæði egypska liðsins til að bera Salah augum, en urðu fyrir vonbrigðum þar sem hann var hvergi sjáanlegur.

Mohamed Abou al-Ela, læknir egypska liðsins viðurkenndi að Salah væri ekki líklegur til að spila fyrsta leik liðsins á HM er Egyptaland mætir Úrúgvæ þann 15. júní.

„Hann finnur enn þá fyrir sársauka í öxlinni. Það tekur þrjár vikur að jafna sig á svona meiðslum," sagði al-Ela við egypska fjölmiðla.

mbl.is