Aðeins þeir bestu munu spila

Luka Modric og landsliðsþjálfarinn Zlatko Dalic.
Luka Modric og landsliðsþjálfarinn Zlatko Dalic. AFP

Króatíska landsliðið hélt til Rússlands í dag, en Króatar mæta Nígeríumönnum í fyrsta leik sínum á HM næstkomandi laugardag. Þjóðirnar eru með Íslendingum í riðli á HM sem hefst í Rússlandi á miðvikudaginn.

Zlatko Dalić, landsliðsþjálfari Króata, vildi ekkert segja til um hvaða leikmönnum hann myndi stilla upp í leiknum á móti Nígeríu þegar hann ræddi við fjölmiðla áður en landsliðshópurinn hélt til Moskvu í dag.

„Við erum búnir að spila fjóra leiki. Við höfum reynt margt í þessum leikjum en núna verðum við að velja þá bestu í leiknum á móti Nígeríu eftir fimm daga. Ég mun gefa bestu leikmönnum okkar tækifæri. Senegal sýndi okkur að við þurfum að laga ýmsa hluti en það er engin ástæða til að óttast neitt.

Ég veit að það eru miklar væntingar en þetta verður ekki auðvelt. Við verðum að vera í okkar besta standi en það er enginn efi í mínum huga varðandi okkar lið. Við erum með frábæra leikmenn og gæði þeirra verða að sjást,“ sagði Dalić.

Króatar verða með bækistöðvar sína í Ilyichevo í Zelenogorsk, sem er í 60 kílómetra fjarlægð frá St. Pétursborg.

mbl.is