Enginn ótti í okkur

Birkir Már Sævarsson spilar með Íslandsmeisturum Vals og hefur tekið þátt í sex af átta leikjum liðsins í Pepsi-deildinni. Hann hefur hins vegar ekki tekið þátt í síðustu leikjum liðsins og mun ekki spila næstu leiki þar sem hann er upptekinn með íslenska landsliðinu og verður í eldlínunni gegn Lionel Messi og samherjum hans í argentínska landsliðinu þegar Ísland og Argentína mætast á HM í Moskvu á laugardaginn.

„Ég held að það séu allir fullir tilhlökkunar og við getum ekki beðið því að fá að byrja þetta. Ég er í ágætu standi. Ég var með stífleika í lærinu í síðustu viku en það hefur verið meðhöndlað og þetta er orðið fínt. Ég æfði í gær og fann ekki fyrir neinu. Aðstaðan hér er öll í hæsta gæðaflokki og við fáum geggjaðan mat á hverjum degi,“ sagði Birkir Már, sem leikur að óbreyttu sinn 80. landsleik á laugardaginn.

„Ég get ekki ímyndað mér að það sé neinn ótti í okkur fyrir leikinn á móti Argentínu. Við höfum náð frábærum úrslitum á síðustu árum á móti frábærum mótherjum og við þurfum ekki að vera hræddir við neitt.

Ég hef engar áhyggjur af sjálfum mér. Maður gleymir því ekkert hvernig á að spila fótbolta þótt ég spili á Íslandi. Ég held að ég hafi sýnt það í þessum landsleikjum sem ég hef fengið að spila að ég hef engu gleymt. Valsmönnum gengur vel án mín og vonandi vinna þeir alla leikina á meðan ég er í burtu. Þá verð ég bara að reyna að koma mér inn í liðið aftur þegar ég kem til baka,“ sagði Birkir Már en sjá má allt viðtalið í spilaranum hér að ofan.

Birkir Már Sævarsson ræðir við blaðamenn fyrir æfinguna í morgun.
Birkir Már Sævarsson ræðir við blaðamenn fyrir æfinguna í morgun. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert