Messi getur tekið upp á hverju sem er

Hannes Þór Halldórsson aðalmarkvörður íslenska landsliðsins í knattspyrnu segist vera búinn að hrista af sér nárameiðslin sem voru að angra hann.

„Ég er alveg laus við þessi meiðsli. Það gekk vel að spila leikinn við Gana heima á Íslandi í einhverju 7-8 gráðum en þegar maður er kominn hingað í 30 gráðurnar þá held ég að það verði ekkert vandamál að lúðra boltanum langt fram á völlinn. Þessir fyrstu dagar í Rússlandi hafa bara verið mjög góðir. Æfingavöllurinn er góður og það fer vel um okkur á hótelinu. Það er því ekki yfir neinu að kvarta,“ sagði Hannes Þór í samtali við mbl.is fyrir æfingu íslenska landsliðsins í knattspyrnu í Gelendzhik í Rússlandi í dag.

Nú eru fimm dagar í leikinn á móti Argentínu. Eru þið byrjaðir að kortleggja Argentínumennina?

„Við tókum okkar fyrsta fund um Argentínu heima á Íslandi fyrir nokkru síðan og síðan hefur þessi leikur borist reglulega í tal. Við erum aðeins byrjaðir að huga að einhverjum áhersluatriðum en stóru fundir eru eftir þegar við munum virkilega sökkva okkur í þá,“ sagði Hannes Þór.

Spurður hvernig markverðir undirbúi sig fyrir að mæta öðrum af tveimur bestu fótboltamönnum í heimi sagði Hannes;

„Við undirbúum okkur í raun ekkert sérstaklega. Þetta snýst um að vera eins góðu standi og maður mögulega getur verið. Leikmaður eins og Messi getur tekið upp á hverju sem er. Það er ómögulegt að lesa hann. Hann getur sett boltann upp í bæði samskeytin, milli fótanna eða vippað boltanum yfir þig. Maður þarf því að vera klár í hverju sem er.

Maður þekkir Messi í svona gegnum tíðina af því hann er áberandi sem skorar endalaust af mörkum. Eins og ég segi er voða erfitt að ætla að undirbúa sig eitthvað sérstaklega fyrir það hvað hann ætlar að gera. Þetta snýst um að fara í leikinn með gott sjálfstraust og trú á að þetta muni ganga upp hjá okkur, vona að Messi hitti ekki á daginn sinn en við hittum á okkar besta leik. Ef það gerist þá eru möguleikar í þessu,“ sagði Hannes Þór en allt viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér að ofan.

Hannes Þór Halldórsson ræðir við blaðamenn fyrir æfinguna í morgun.
Hannes Þór Halldórsson ræðir við blaðamenn fyrir æfinguna í morgun. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert