Verð klár ef kallið kemur

Það er eðlilega mikill fiðringur í Alberti Guðmundssyni en þessi 21 árs gamli sóknarmaður er í landsliðshópnum sem er að undirbúa sig fyrir þátttöku á fyrsta heimsmeistaramótinu í knattspyrnu en Íslendingar stíga inn á stóra sviðið í Moskvu á laugardaginn þegar þeir mæta Argentínumönnum.

„Það er heiður að vera í þessum mikla og góða hópi,“ sagði Albert sem hefur skorað þrjú mörk í þeim 5 leikjum sem hann hefur spilað með íslenska A-landsliðinu.

Ertu ekki að gæla við það að þú fáir að spreyta þig eitthvað í þessum leikjum á HM?

„Ég verð alla vega klár ef kallið kemur. Ég er alveg að búast við einhverjum mínútum og það er betra að vera klár heldur en ekki og verða þá fyrir vonbrigðum. Frá fyrsta degi hér í Rússlandi höfum við rætt um Argentínuleikinn. Auðvitað þekkjum við flestir í landsliðinu þessa leikmenn sem spila með Argentínu. Við horfum á þá spila í bestu deildum heims nánast í hverri viku og það er kannski auðveldara fyrir okkur að skoða þá heldur en þeir okkur.

Ég er ekki ennþá búinn að hugsa út í það hvernig við munum reyna að stoppa Messi. Það er mikið talað innan hópsins að taka ekki fyrsta skrefið heldur láta hann gera það. Ef hann er ekki frír þá senda þeir boltann á nokkra aðra góða í liðinu,“ sagði Albert en sjá má allt viðtalið við hann í spilaranum hér að ofan.

Albert Guðmundsson rabbar við rússneska fréttakonu á æfingavellinum í morgun.
Albert Guðmundsson rabbar við rússneska fréttakonu á æfingavellinum í morgun. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert