Ætlum okkur upp úr riðlinum

Luka Modric, Ivan Rakitic og Mario Mandzukic á æfingu króatíska ...
Luka Modric, Ivan Rakitic og Mario Mandzukic á æfingu króatíska landsliðsins í gær. AFP

Luka Modric er skærasta stjarna króatíska landsliðsins sem verður síðasti mótherji Íslands í riðlakeppninni á HM í Rússlandi.

Modric vann Meistaradeildina með Real Madrid þriðja árið í röð í síðasta mánuði og var síðustu helgi krýndur knattspyrnumaður ársins í Króatíu sjötta árið í röð.

„Frábær úrslit með landsliðinu er það eina sem ég vil enn ná og fyrsta markmið okkar er að komast upp úr riðlinum og fara í sextán liða úrslitin. Það hefur okkur ekki tekist síðan 1998 en ég tel að við munum ná því hér í Rússlandi,“ segir Modric sem á að baki 106 leiki með króatíska landsliðinu og hefur í þeim skorað 12 mörk.

Króatar mæta Nígeríumönnum í Kaliningrad á laugardaginn en Króatar og Íslendingar eigast við í Rostov 26. júní.

mbl.is