Öll lið hafa veikleika

Kári Árnason leikur að óbreyttu sinn 68. landsleik þegar Íslendingar og Argentínumenn mætast á HM í Moskvu á laugardaginn.

„Undirbúningurinn er búinn að vera góður hingað til og ég held að hann verði bara betri,“ sagði Kári í samtali við mbl.is fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Kabardinka í Rússlandi í dag. Kári segir að síðustu dagar hafi farið í að fara yfir lið Argentínu.

„Við erum svona aðeins byrjaðir að skoða argentínska liðið og munum örugglega fara yfir hugsanlegt byrjunarlið þeirra í kvöld eða á morgun. Við erum búnir að fara yfir þeirra helstu veikleika og sjá hvar við getum meidd þá. Öll lið hafa veikleika en hversu miklir þeir eru erfitt að dæma um. Argentínumenn eru með frábært lið og valinn mann í hverri stöðu. Í leik liða eru oft veikleika að finna og við teljum okkur hafa séð einhverja,“ sagði Kári.

Það verður væntanlega nóg að gera hjá ykkur í öftustu varnarlínu og í raun og veru öllum leikmönnunum í leiknum á móti Argentínu?

„Við vitum alveg að Argentína mun verða með boltann 60-70% í leiknum. Engu að síður hentar það okkur ágætlega. Sá leikur sem við vorum mest með boltann á EM var á móti Frakklandi og þar fengum við á okkur fimm mörk. Við vitum að þetta verður erfiður leikur og mikil hlaup en þetta snýst svolítið mikið að gera þetta allir saman.

Fyrirfram er þetta erfiðasti leikurinn í riðlinum en við vitum að hin tvö liðin eru ekkert slor og við höfum mætt Króötum mörgum sinnum á undanförnum árum. Við förum í hvern leik til þess að reyna að vinna hann og ef við náum ekki að vinna þá tökum við jafntefli. Við höfum allir trú á að við getum unnið hvaða lið sem er í heiminum,“ sagði Kári en eftir að HM lýkur tekur við nýr kafli hjá Kára þegar hann fer að spila með sínu gamla liði Víkingi Reykjavík í Pepsi-deildinni.

„Það leggst bara ágætlega í mig en ég er lítið að hugsa út í það núna. Ég er bara að einbeita mér 100% að þessu verkefni og það er ekkert lítið verkefni. Ég er í toppformi fyrir HM og það var gott að fá 180 mínútur í aðdraganda mótsins,“ sagði Kári en allt viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér að ofan.

Kári Árnason ræðir við fjölmiðla í Kabardinka í dag.
Kári Árnason ræðir við fjölmiðla í Kabardinka í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert