Hierro stýrir Spánverjum á HM

Fernando Hierro mun stýra Spánverjum á heimsmeistaramótinu í Rússlandi.
Fernando Hierro mun stýra Spánverjum á heimsmeistaramótinu í Rússlandi. AFP

Fernando Hierro mun stýra spænska landsliðinu í knattspyrnu á HM í Rússlandi sem hefst á morgun. Hierro tekur við liðinu af Julen Lopetegui sem var rekinn í morgun. Lopetegui tilkynnti það í gær að hann tæki við Real Madrid þegar heimsmeistaramótinu lyki en það fór ekki vel í forráðamenn spænska knattspyrnusambandsins.

Hierro hefur starfað sem yfirmaður íþróttamála hjá spænska knattspyrnusambandinu að undanförnu en hann stýrði síðast Oviedo, tímabilið 2016-2017. Hann var fyrirliði spænska landsliðsins á sínum tíma og á að baki 89 landsleiki fyrir Spán þar sem hann skoraði 29 mörk. Hann verður kynntur sem nýr þjálfari liðsins á Krasnodar-vellinum síðar í dag.

Spánverjar hefja leik á heimsmeistaramótinu á föstudaginn þegar liðið mætir Portúgal í Sochi en liðin leika í B-riðli keppninnar, ásamt Marokkó og Íran.

mbl.is