Ólíðandi vinnubrögð

Spánverjar eru mættir til Rússlands en þeir eru þjálfaralausir eftir ...
Spánverjar eru mættir til Rússlands en þeir eru þjálfaralausir eftir að Julen Lopetegui var rekinn í morgun. AFP

Spænska knattspyrnusambandið ákvað í dag að reka Julen Lopetegui, þjálfara spænska landsliðsins úr starfi. Lopetegui tilkynnti það í gær að hann myndi taka við knattspyrnustjórastarfinu hjá spænska stórliðinu Real Madrid þegar HM lyki en Luis Rubiales, forseti spænska knattspyrnusambandsins boðaði til blaðamannafundar í morgun þar sem hann tilkynnti ákvörðun sína.

„Þetta eru mjög erfiðar aðstæður og ég geri mér fulla grein fyrir því. Það hefði ekki skipt neinu máli hvað ég hefði gert, ákvörðunin hefði alltaf verið umdeild, hvort sem við hefðum látið hann fara eða ekki,“ sagði Rubiales.

„Ég vona, í framtíðinni að við komum sterkari til baka. Ég ber mikla virðingu fyrir Julen og því starfi sem hann hefur unnið fyrir okkur. Hann er frábær þjálfari sem gerir þetta ennþá erfiðara. Svona vinnubrögð eru hins vegar ólíðandi, tveimur til þremur dögum fyrir heimsmeistaramótið. Ég var tilneyddur til þess að taka þessa ákvörðun," sagði forsetinn að lokum.

Spánverjar mæta Portúgal í fyrsta leik sínum á HM á föstudaginn næsta en liðið leikur í B-riðli heimsmeistaramótsins, ásamt Portúgal, Marokkó og Íran. Ekki er ennþá ljóst hver mun taka við starfinu af Lopetegui en Spánverjar eru þjálfaralausir í Rússlandi eins og sakir standa.

mbl.is