„Aldrei verið meiri pressa á Messi“

Það er mikil pressa á argentínska landsliðinu og Lionel Messi ...
Það er mikil pressa á argentínska landsliðinu og Lionel Messi þessa dagana. AFP

Fyrrverandi fyrirliði argentínska landsliðsins í knattspyrnu, Javier Zanetti segir að pressan á Lionel Messi, fyrirliða Argentínu hafi aldrei verið meiri en nú. Argentína hefur spilað til úrslita á stórmótum, síðastliðin fjögur ár en 2014 tapaði liðið fyrir Þýskalandi á HM, 1:0. Liðið tapaði svo fyrir Síle í úrslitum Suður-Ameríkukeppninnar, 2015 og 2016.

„Það er gríðarleg pressa á Messi, ekki bara vegna þess að þetta er heimsmeistaramótið. Liði hefur tapað síðustu þremur úrslitaleikjum og hann á ennþá eftir að vinna stóran titil með Argentínu,“ sagði Zanetti í samtali við argentínska fjölmiðla.

„Það búast allir við því að þetta verði heimsmeistaramótið hans. Argentína getur unnið keppnina en það verður erfitt. Það eru fleiri frábær lið að taka þátt í mótinu. Það að tapa þremur úrslitaleikjum, á síðustu þremur stórmótum setur aukna pressu á hann og liðið. Það eru miklar væntingar gerðar til liðsins.“

„Það er allt í biðstöðu í Argentínu þegar heimsmeistaramótið fer fram. Áhuginn er mikill og það hafa allir ástríðu fyrir landsliðinu. Vonandi getur liðið farið alla leið, það eru kröfurnar sem fólk gerir til liðsins í dag,“ sagði Zanetti að lokum.

Argentína hefur leik á heimsmeistaramótinu gegn Íslandi í Moskvu þann 16. júní en pressan er öll á argentínska liðinu fyrir leikinn mikilvæga.

mbl.is