Ekki til orð til að lýsa tilfinningunni

Lærisveinar Juan Pizzi fengu skell.
Lærisveinar Juan Pizzi fengu skell. AFP

„Þetta var erfiður leikur og við töpuðum stórt og óvænt,“ sagði Juan Pizzi, landsliðsþjálfari Sádi-Arabíu eftir 5:0-tap fyrir Rússlandi í upphafsleik HM í fótbolta í Moskvu í dag. 

„Rússar gerðu mjög vel, á meðan við litum ekki vel út. Við spiluðum mjög illa og við verðum að breyta um leikskipulag fyrir næsta leik. Við verðum að gleyma þessum leik núna og hugsa um næsta leik,“ sagði Pizzi á fréttamannafundi eftir leik. 

Stanislav Cherchesov, þjálfari rússneska liðsins, ræddi um leikinn við Egyptaland sem er næst á dagskrá. „Við erum búnir með fyrsta skrefið, en erfiðari mótherjar bíða okkar. Við vitum ekki enn hvort Mo Salah spili á móti okkur, en það verður erfiðara að vinna Egyptaland ef hann er með,“ sagði hann. 

Denis Cheryshev spjallaði svo við fjölmiðla, en hann skoraði tvö mörk í leiknum. „Það er ekki til orð til að lýsa tilfinningunni. Ég gat ekki látið mig dreyma um þetta,“ sagði Cheryshev

Denis Cheryshev fagnar í dag.
Denis Cheryshev fagnar í dag. AFP
mbl.is