Hjólaði frá Sádi-Arabíu til Rússlands

Fahd Al-Yahya hjólaði rúmlega 5.000 kílómetra til þess að horfa …
Fahd Al-Yahya hjólaði rúmlega 5.000 kílómetra til þess að horfa á upphafsleik heimsmeistaramótsins. AFP

Sádi-Arabinn Fahd Al-Yahya hefur vakið mikla mikla athygli í aðdraganda heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem hefst í Rússlandi í dag. Al-Yahya hjólaði frá Sádi-Arabíu til Rússlands til þess að sjá upphafsleik mótsins þegar heimamenn taka á móti Sádi-Aröbum.

Leiðin sem Al-Yahya hjólaði spannar yfir 5.145 kílómetra en ferðin tók hann 75 daga. Hann verður á Luzhniki-vellinum í Moskvu á eftir þegar flautað verður til leiks klukkan 15. „Prinsinn í Riyadh-héraðinu, Faysal Ben Bandar Abdulaziz, gaf mér þjóðfánann áður en ég lagði af stað,“ sagði hjólareiðamaðurinn í samtali við FIFA.

Fahd Al-Yahya við komuna til Rússlands.
Fahd Al-Yahya við komuna til Rússlands. Ljósmynd/FIFA

„Ég tók fánann með mér til Rússlands og afhenti sendiráði Sádi-Arabíu í Rússlandi hann. Ég afhenti sendiherranum Raed Qrimli hann á þriðjudaginn. Ég lagði í þessa vegferð til þess að styðja við bakið á grænu fálkunum á heimsmeistaramótinu,“ sagði Al-Yahya að lokum.

Sádi-Arabar leika í A-riðli keppninnar ásamt Rússlandi, Egyptalandi og Úrugvæ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert