Órjúfanleg liðsheild og víkingaklapp

Strákarnir okkar mæta Argentínu í fyrsta leik sínum á HM …
Strákarnir okkar mæta Argentínu í fyrsta leik sínum á HM á laugardaginn. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu er nú á leiðinni til Moskvu en liðið mætir Argentínu í fyrsta leik sínum á mótinu á Spartak-vellinum í Moskvu á laugardaginn. Íslenska liðið dvelur í Kabardinka í Rússlandi og hefur æft þar undanfarna daga.

Bandaríski miðillinn New York Times var með skemmtilega umfjöllun um allar 32 þátttökuþjóðirnar á heimsmeistaramótinu en Bandaríkin eru ekki með í ár, en liðið endaði í fimmta sæti Norður-Ameríku-riðilsins og komst því ekki á mótið.

„Ísland er fámennasta þjóð sögunnar til þess að tryggja sér sæti á lokamóti EM en það var ekki nóg. Núna getur Ísland státað af því líka að vera fámennasta þjóð sögunnar til þess að tryggja sér sæti á lokamóti HM. Árangur liðsins í undankeppninni sló árangrinum á EM við en liðið var í riðli með Króatíu, Tyrklandi og Úkraínu.“

Víkingaklappið hefur vakið athygli heimsbyggðarinnar.
Víkingaklappið hefur vakið athygli heimsbyggðarinnar. mbl.is/Golli

Þegar farið er yfir það, við hverju fólk megi búast við af íslenska liðinu er tvennt sem stendur upp úr í umsögn New York Times: „Órjúfanleg liðsheild og víkingaklappið fræga einkennir íslenska liðið. Það mun hins vegar enginn vanmeta íslenska liðið, eftir árangurinn að undanförnu og það gæti komið í bakið á þeim.“

Þá sér bandaríski miðillinn ekkert því til fyrirstöðu að íslenska liðið geti farið áfram í útsláttarkeppnina, líkt og liðið gerði á EM í Frakklandi 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert