Reynum að koma Heimi í klípu

Það var létt yfir landsliðsmanninum Emil Hallfreðssyni fyrir æfingu íslenska landsliðsins í knattspyrnu í Kabardinka í Rússlandi í dag.

„Ég get reyndar ekki talað fyrir alla en ég er alla vega 100 prósent klár bæði líkamlega og andlega. Þetta er verkefni sem maður er búinn að bíða eftir ansi lengi,“ sagði Emil en eftir aðeins tvo daga mæta Íslendingar ógnasterku liði Argentínu í fyrsta leik sínum á HM.

„Við fórum meira yfir jákvæð hlutina sem áttu sér stað í vináttuleikjunum fyrir HM. Ég held að leikurinn við Argentínu muni þróast með þeim hætti að Argentínumenn verða meira með boltann. Það er þeirra tölfræði í gegnum árin. Þeir eru með 60-65 prósent með boltann í öllum leikjum og skiptir ekki máli hvort þeir mæti lítilli þjóð eins og okkur eða stærri liðunum.

Við verðum að vera þéttir til baka og refsa á þeim stöðum sem við teljum að við getum gert það. Hingað til hefur gengið vel að spila góðan varnarleik á móti þessum stóru liðum og ég sé enga ástæðu til að vera eitthvað hræddir að mæta þeim á laugardaginn. Það kemur í ljós á föstudagskvöldið hvernig byrjunarlið okkar kemur til með að líta út. Á meðan reynum við bara að æfa vel og koma Heimi í klípa með að ákveða liðið.

Við vitum að það er engin töfralausn að halda aftur að Messi. Hann er einn besti fótboltamaður í heiminum í dag. Við ætlum að reyna að stoppa hann og vonandi mun hann eiga einn af sínum verri dögum,“ segir Emil en allt viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér að ofan.

Emil Hallfreðsson á æfingu landsliðsins í morgun.
Emil Hallfreðsson á æfingu landsliðsins í morgun. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is