Skapandi leikmenn í framlínu Sádanna

Lið Sádi-Arabíu sem tapaði naumlega fyrir heimsmeisturum Þýskalands 2:1 í ...
Lið Sádi-Arabíu sem tapaði naumlega fyrir heimsmeisturum Þýskalands 2:1 í síðasta vináttuleiknum fyrir HM. AFP

Juan Antonio Pizzi tók sér sæti á bekknum sem þjálfari Sádi-Arabíu í fyrsta skipti í nóvember árið 2017. Hann er enn að bíða eftir fyrsta keppnisleik sínum sem þjálfari Grænu fálkanna, sem verður gegn Rússum í upphafsleik HM.

Á þessu sjö mánaða tímabili spilaði argentínski þjálfarinn eins marga æfingaleiki og hann gat til þess að fá góða mynd af því hvar liðið stendur og hvað þarf að laga áður en augu heimsins beinast að þeim 14. júní.

Í undankeppninni í stjórnartíð Bert Van Marwijk spiluðu Grænu fálkarnir yfirleitt 4-3-3, þar sem þeir sátu til baka gegn betri liðunum og reyndu að beita hröðum skyndisóknum þegar þeir unnu boltann. Pizzi hefur verið að reyna að fá leikmenn liðsins til þess að spila meira út úr vörninni. Það hefur virkað upp að vissu marki. Í sigurleikjum gegn Alsír og Grikklandi spilaði liðið ljómandi vel og sýndi miklar framfarir frá 4:0 ósigri gegn Belgum. Liðið hefur haldið boltanum betur og fært hann hratt milli manna. Liðið getur einnig hægt á leikjum, stöðvað flæði andstæðingsins og verið almennt pirrandi lið að spila á móti.

Pizzi, fyrrverandi þjálfari Síle, mun líklega tefla fram þéttu 4-2-3-1 kerfi í Rússlandi þar sem fremstu þrír eru tilbúnir að færa sig aftar á völlinn til þess að tryggja að það sé nóg af leikmönnum á miðsvæðinu.

Þar sem markaskorun gæti reynst vandamál munu Grænu fálkarnir einbeita sér að því að vera þéttir. Þeir hafa reynslu í varnarlínunni en hún er mögulega á kostnað hraða auk þess að leikmennirnir hafa lítið reynt sig gegn heimsklassa framherjum. Osama Hawsawi, sem er stór og sterkur, er leiðtogi þeirra í vörninni. Hann er hægari en áður en Omar Othman sem spilar við hlið hans hefur staðið sig frábærlega á þessari leiktíð. Það eru nokkrir ágætis möguleikar í bakvarðarstöðunum með mönnum á borð við Yasir Al-Sharani, sem er fljótur að koma upp völlinn og getur spilað bæði hægra og vinstra megin.

Hinn reynslumikli Taisser Al-Jassam mun spila með hinum vanmetna Abdullah Otayf á miðjunni. Þeir eru báðir öruggir með boltann þó að Otayf muni sennilega ekki fá eins mörg tækifæri til að koma upp völlinn eins og hann vildi.

Sóknarmennirnir þrír standa upp úr. Salem Al-Dawsari, Yahia Al-Shehri og Fahad Al-Muwallad eru skapandi leikmenn og hafa hæfileikana til að opna varnir asískra liða. Hvort þeim takist það á stóra sviðinu verður að koma í ljós. Tríóið eyddi seinni hluta síðasta tímabils að láni hjá spænskum félögum þar sem þeir fengu aðeins tvo leiki samtals. Hversu beittir þeir verða í Rússlandi gæti gert útslagið um hveru vel liðinu gengur. Kantmennirnir eru færir um að komast á bak við varnir andstæðinganna og ef Al-Shehri getur fundið sér pláss fyrir aftan framherjann gætu Grænu fálkarnir skapað vandræði. Nawaf Al-Abeb, sem var mikilvægur í undankeppninni, er annar leikmaður sem getur búið til hluti fyrir liðið en hann hefur átt við meiðsli að stríða og missir af mótinu.

Markaskorun er vandamál. Mohammad Al-Sahlawi er líklegur til að vera fremstur en það eru fleiri kostir eins og til dæmis Muhannad Asiri sem er sterkur í loftinu og getur haldið boltanum betur.

Líklegt byrjunarlið: Almosailem – Al-Burayk, Omar, Osama, Yasir – Otayf, Taiseer – Fahah, Yahaia, Salem – Al-Sahlawi.

Þetta er ein af 32 greinum úr HM-blaði Morgunblaðsins sem eru skrifaðar af jafnmörgum íþróttafréttamönnum þeirra þjóða sem eiga lið á HM. Sádi-Arabar mæta Rússum í upphafsleik keppninnar kl. 15 í dag.