Töskurnar eftir en treyjurnar með

Elsa, Valur, Sævar og Sigríður í miðborg Moskvu í dag.
Elsa, Valur, Sævar og Sigríður í miðborg Moskvu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjórir Austfirðingar sem sluppu naumlega upp í flugvélina til Moskvu í gær voru komnir í stóran hóp fótboltaáhugafólks víðs vegar að úr heiminum í miðborg rússnesku höfuðborgarinnar í morgun en þar hefst heimsmeistaramót karla í dag með leik Rússlands og Sádi-Arabíu.

Á laugardaginn er hins vegar stóri leikurinn, Ísland og Argentína, klukkan 16 að staðartíma eða 13 að íslenskum tíma.

Elsa Sigrún Elísdóttir, Valur Sveinsson, Sævar Þór Gylfason og Sigríður Arna Ólafsdóttir flugu til Frankfurt í gær en vegna seinkunar á fluginu munaði engu að þau misstu af vélinni þaðan til Moskvu. Blaðamaður og ljósmyndari mbl.is hittu þau í Moskvu fyrir stundu.

„Það var búið að loka hliðinu en okkur tókst að tala okkur í gegn og inn í flugvélina,“ sagði Sævar sem á sínum tíma varði mark knattspyrnuliðs Sindra á Hornafirði og á einn úrvalsdeildarleik að baki í marki Valsmanna. Sævar og Sigríður búa nú í Kópavogi, eins og margir Austfirðingar. Valur Sveinsson var samherji hans hjá Sindra og spilaði líka með Leikni á Fáskrúðsfirði en þar búa hann og Elsa.

„Töskurnar urðu eftir í Frankfurt og við vitum ekkert hvort þær skila sér hingað áður en við förum á sunnudaginn. En landsliðstreyjurnar voru sem betur fer í handfarangrinum og það er aðalmálið!“ sagði Elsa sem spilaði með kvennaliðum Sindra og Leiknis á sínum tíma.

Systir hennar og mágur frá Fáskrúðsfirði eru væntanleg til Moskvu fyrir Argentínuleikinn ásamt fleirum. „Þau ætla að taka þetta alla leið og fara líka á leikina í Volgograd og Rostov,“ sagði Elsa enn fremur þegar mbl.is hitti fjórmenningana í Moskvu í dag.

Valur Sveinsson ræðir við stuðningsmann Mexíkó og samferðafólk hans fylgist …
Valur Sveinsson ræðir við stuðningsmann Mexíkó og samferðafólk hans fylgist með. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert