Vinur leikmanns lak byrjunarliði Brasilíu

Þeir Philippe Coutinho og Neymar verða báðir í byrjunarliði Brasilíu ...
Þeir Philippe Coutinho og Neymar verða báðir í byrjunarliði Brasilíu gegn Sviss ef eitthvað er að marka brasilíska fjölmiðla. AFP

Heimsmeistaramótið í knattspyrnu hefst í Rússlandi í dag þegar heimamenn taka á móti Sádi-Arabíu í upphafsleik mótsins. Brasilíska landsliðið er mætt til Rússlands en liðið æfði í gær fyrir luktum dyrum. Brasilía mætir Sviss í fyrsta leik sínum á heimsmeistaramótinu 17. júní í Rostov.

Blaðamenn fengu fimmtán mínútur með leikmönnum liðsins í gær en þurftu svo að yfirgefa æfingasvæðið. Vinir og fjölskyldur leikmannanna fengu hins vegar að fylgjast með æfingu liðsins. Ónefndur félagi Gabriel Jesus, framherja Manchester City, ákvað að birta myndband af æfingu landsliðsins á samskiptamiðlinum Instagram.

Glöggir knattspyrnusérfræðingar áttuðu sig fljótlega á því að þarna var á ferð byrjunarlið Brasilíu gegn Sviss í fyrsta leiknum en myndefninu hefur nú verið eytt. Brasilískir miðlar eru hins vegar vissir í sinni sök og spá því að liðið verði svona gegn Sviss, líkt og myndbandið gaf til kynna.

Alisson; Danilo, Silva, Miranda, Marcelo; Casemiro, Paulinho, Coutinho; Willian, Neymar, Gabriel Jesus.

mbl.is