Færir Messi Randers milljónir?

Hannes Þór með verðlaunagripinn fyrir að vera valinn maður leiksins …
Hannes Þór með verðlaunagripinn fyrir að vera valinn maður leiksins í gær. Ljósmynd/FIFA

Hannes Þór Halldórsson var hetja íslenska landsliðsins í 1:1 jafnteflinu gegn Argentínumönnum á HM í Moskvu í gær.

Hannes gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnu frá sjálfum Lionel Messi um miðjan seinni hálfleik í stöðunni 1:1 og eftir leikinn var Hannes útnefndur maður leiksins. Forráðamenn danska liðsins Randers sem Hannes Þór leikur með eru í sjöunda himni með frammistöðu síns manns og segjast tilbúnir að selja hann komi gott tilboð.

„Við erum ótrúlega ánægðir með Hannes. Hann átti frábæran leik. Og að hann hafði varið vítaspyrnu frá besta fótboltamanni heims gerir okkur hér í Randers mjög stolta,“ segir Sören Pedersen íþróttastjóri Randers í viðtali við danska blaðið BT.

„Við erum ánægðir með að hafa Hannes og hann er ánægður hjá okkur en komi einhver tilboð í hann þurfum við að sjá til með það og finna út úr því. Það kemur mér á óvart ef það koma ekki einhver tilboð í Hannes,“ segir Pedersen.

Hannes, sem er 34 ára gamall, hefur leikið með Randers frá árinu 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert