Getum bætt fullt af hlutum

Helgi Kolviðsson, aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins í knattspyrnu, segir að þótt liðið hafi náð frábærum úrslitum á móti Argentínu í fyrsta leik sínum á HM í gær sé ýmislegt sem liðið geti gert betur.

Helgi ræddi við mbl.is eftir æfingu landsliðsins í Kabardinka í morgun en í æfingunni tóku þátt þeir leikmenn sem léku lítið eða ekki neitt í leiknum í gær.

„Strákarnir eru margir hverjir þreyttir sem er eðlilegt enda var mikið álag á þeim í gær. Leikurinn var erfiður og svo fórum við beint í flug hingað og vorum komnir frekar seint. Svo sofa menn mismikið eftir svona leiki og það voru því ýmsir þreyttir í morgun,“ sagði Helgi.

Nú þegar er hafinn undirbúningur fyrir næsta leik íslenska liðsins á HM sem er gegn Nígeríu í Volgograd á föstudaginn.

Er eitthvað sem liðið hefði getað gert betur í leiknum í gær?

„Já það er fullt af hlutum. Við tökum margt frá þessum leik sem við getum bætt okkur í eins kringum föstu leikatriðin sem við höfum oft gert betur í heldur en í gær. Það er alltaf hægt að bæta sig en þetta var eðlilegt í fyrsta leik á HM og það gegn liði eins og Argentínu. En við tökum líka með okkur fullt af góðum hlutum. Skipulagið á liðinu var gott, við vörðumst vel einn á móti einum og leikurinn var góð raun á marga.

Við afgreiðum þennan leik í kvöld með strákunum, á morgun gefum við þeim frí þar sem þeir hlaða batteríin og svo hefst bara undirbúningur fyrir leikinn gegn Nígeríu. Nígería er öflugt lið og þess vegna tókum við undirbúningsleik á móti Gana. Það eru lið sem spilað svipað. Nígeríumennirnir eru mjög hraðir og sterkir og þetta verður öðruvísi leikur heldur en á móti Argentínu. Við þurfum að setja upp annað plan á móti Nígeríu frá leiknum við Argentínu,“ sagði Helgi en sjá má allt viðtalið við hann í spilaranum hér að ofan.

Helgi Kolviðsson ræðir við mbl.is í Kabardinka í dag.
Helgi Kolviðsson ræðir við mbl.is í Kabardinka í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert