Heimir vill svör um miðamálin

Íslensku stuðningsmennirnir tóku vitaskuld víkingaklappið en voru jafnan truflaðir af …
Íslensku stuðningsmennirnir tóku vitaskuld víkingaklappið en voru jafnan truflaðir af miklum fjölda stuðningsmanna Argentínu. mbl.is/Eggert

Heimir Hallgrímsson segir að svör þurfi að fást varðandi það hvers vegna Argentínumenn fengu langtum fleiri miða en Íslendingar á leik liðanna á HM í knattspyrnu í Moskvu í gær.

Íslenskir stuðningsmenn settu svip sinn á leikinn en voru þó í miklum minnihluta ef mið er tekið af því hve margar ljósbláar og hvítar treyjur Argentínu mátti sjá í stúkunni. Uppselt var á leikinn sem þýðir að 44.190 áhorfendur voru á Spartak-leikvanginum.

Íslendingarnir í stúkunni sátu í nokkrum hópum á dreif um leikvanginn og gerðu sitt besta til að styðja við strákana á vellinum en stuðningsmenn Argentínu áttu auðvelt með að yfirgnæfa þá þegar þeim þóknaðist, slíkur var fjöldi þeirra. FIFA á að hafa tekið frá 8% miða fyrir hvora þjóð samkvæmt fréttum af miðasölu í vetur, en aðrir miðar seldir í opinni sölu eða þeim úthlutað til styrktaraðila. Áætlað er að um 5.000 Íslendingar hafi verið í stúkunni í gær.

Íris Sæmundsdóttir, eiginkona Heimis, var í stúkunni og smellti kossi …
Íris Sæmundsdóttir, eiginkona Heimis, var í stúkunni og smellti kossi á sinn mann eftir leik. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Við erum ótrúlega stolt af þessum stuðningi hérna,“ sagði Heimir landsliðsþjálfari, spurður út í íslensku stuðningsmennina á fréttamannafundi.

„Það er reyndar skrýtið hve fljótt varð uppselt fyrir Íslendinga því einhvern veginn tókst Argentínumönnum að fá svona mikið af miðum. Við þurfum að komast að því hvernig þetta gerðist, fyrir næsta leik,“ sagði Heimir.

Leikmenn gáfu sér góðan tíma í að fagna með stuðningsmönnum eftir 1:1-jafnteflið. „Það er alltaf spurt hvers vegna við fögnum stiginu, en bíðið bara og sjáið hvernig þetta verður þegar við vinnum leik,“ sagði Heimir léttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert