Óvissa með Jóhann Berg

Jóhann Berg Guðmundsson í leiknum gegn Argentínu í gær.
Jóhann Berg Guðmundsson í leiknum gegn Argentínu í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki liggur ljóst fyrir hversu alvarleg meiðsli landsliðsmannsins Jóhanns Berg Guðmundssonar, sem hann varð fyrir í leiknum gegn Argentínumönnum á HM í gær, eru.

Þegar þetta er skrifað er Jóhann Berg í myndatöku en hann meiddist á kálfa og varð að fara af velli snemma í síðari hálfleik. Það gæti farið svo að kantmaðurinn skæði spilaði ekki síðustu tvo leiki Íslands í riðlakeppninni en Íslendingar mæta Nígeríumönnum í Volgograd á föstudaginn og svo Króötum í Rostov 26. þessa mánaðar.

„Við bíðum eftir því hvað kemur út úr myndatökunni. Það eru ekkert allir mjög jákvæðir út af þessu en þess vegna tókum við 23 leikmenn með okkur og það kemur alltaf maður í manns stað. Það verður ekki gott að missa Jóa ef það verður niðurstaðan. Við vonum það besta,“ sagði Helgi Kolviðsson, aðstoðarþjálfari landsliðsins, við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert