„Ísland gerði ekki neitt,“ sagði Messi

Lionel Messi, fyrirliði Argentínumanna, var ekki hrifinn af leikstíl íslenska liðsins í leik liðanna á HM í gær þar sem niðurstaðan varð 1:1-jafntefli.

Messi fékk gullið tækifæri til að tryggja sínum mönnum sigurinn þegar Argentínumenn fengu vítaspyrnu um miðjan seinni hálfleik en Hannes Þór Halldórsson sá við besta knattspyrnumanni heims og varði spyrnu hans meistaralega.

„Ísland gerði nánast ekki neitt. Allt sem það gerði var að verjast og sóknarleikurinn byggðist á löngum innköstum. Við verðskulduðum sigur í þessum leik en við getum tekið eitthvað jákvætt með okkur þrátt fyrir þessi úrslit. Tilfinningin hjá okkur er hins vegar beiskja og reiði.

Íslenska liðið er líkamlega sterkt og við vissum að þetta yrði erfiður leikur. Ég er ábyrgur fyrir því að við tókum ekki stigin þrjú. Með því að skora úr vítinu hefðum við unnið leikinn. En það þýðir ekkert að dvelja lengur við þennan leik heldur horfa fram á veginn,“ sagði Messi, sem var tekinn föstum tökum af Aroni Einari Gunnarssyni og Emil Hallfreðssyni í leiknum og náði argentínski sóknarmaðurinn ekki að töfra neitt fram af neinu viti.

Lionel Messi tekur vítaspyrnuna sem Hannes Þór Halldórsson varði.
Lionel Messi tekur vítaspyrnuna sem Hannes Þór Halldórsson varði. AFP
mbl.is