„Möguleiki ef við vinnum Ísland“

Byrjunarlið Nígeríu í leiknum gegn Króatíu í gær.
Byrjunarlið Nígeríu í leiknum gegn Króatíu í gær. AFP

Gernot Rohr landsliðsþjálfari Nígeríu heldur í vonina um að sínir menn komist upp úr riðlinum ef þeim tekst að vinna Íslendinga en liðin eigast við í 2. umferð D-riðilsins á HM í Volgograd á föstudaginn.

Nígeríumenn töpuðu fyrir Króötum 2:0 í Kalingrad í gærkvöld og verma þar með botnsætið í riðlinum, sem hefur oft verið nefndur dauðariðillinn á HM.

Nígería fékk bæði mörkin á sig úr föstum leikatriðum. Það fyrra kom úr hornspyrnu þar sem Oghenkaro Etebo varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í fyrri hálfleik og Luka Modric skoraði síðara markið úr vítaspyrnu í seinni hálfleik en vítið var dæmt eftir brot í teignum eftir hornspyrnu.

„Við erum vonsviknir. Við viðurkennum að Króatar voru betri aðilinn og mínir ungu leikmenn gerðu mistök, aftur eftir hornspyrnur,“ sagði Rohr eftir leikinn.

„Núna þurfum við að vinna Ísland og ef okkur tekst það þá er möguleiki fyrir okkur að komast áfram,“ sagði landsliðsþjálfari Nígeríu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert